Vitorðsmenn ekki útilokaðir

Frá blaðamannafundi lögreglunnar í lögreglustöðinni við Hverfisgötu.
Frá blaðamannafundi lögreglunnar í lögreglustöðinni við Hverfisgötu. mbl.is/Júlíus

Ekki er útilokað að Matthías Máni hafi átt sér vitorðsmenn segir Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann sagði að Matthías Máni hafi verið rólegur og yfirvegaður þegar hann gaf sig fram og ekki ógnandi en að hann hefði verið með „Rambó-útbúnað“ á sér. Þetta kom fram á fréttamannafundi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem var haldinn kl. 10 í morgun.

Það var klukkan 05:09 í morgun sem Matthías Máni gaf sig fram á Ásólfsstöðum í Þjórsárdal. Hann barði á glugga og hurðir nokkuð stíft, en húsið er tveggja hæða og það tók nokkurn tíma fyrir heimilisfólk að vakna. Heimasætan vaknaði og Matthías hrópaði þá „Ég gefst upp, ég gefst upp, hringið á lögregluna.“

Bóndinn ræddi við Matthías út um glugga og bauð honum hlý föt og hvort hann vildi eitthvað að borða. Matthías Máni fékk bollasúpu og hangikjöt út um gluggann fyrst um sinn. Honum var síðan boðið inn í sólstofu þar sem hann fékk jólaköku og kaffi. Heimasætan hringdi á lögregluna og var heimilisfólk í stöðugu sambandi við lögregluna þangað til hún kom á svæðið. Matthías Máni var alls ekki ógnandi og virtist rólegur og yfirvegaður og í góðu jafnvægi.

Lögreglan á Selfossi kom svo og sótti Matthías og ók honum rakleiðis á Litla-Hraun. Þangað var hann kominn kl. 6.31 í morgun, að sögn Arnars. Ekki var enn búið að yfirheyra hann, en stefnt er að því að lögreglan á Selfossi yfirheyri hann í dag.

Arnar sagði að það væri rétt að það kæmi fram Matthías Máni hafði áhyggjur af ættingjum sínum og vildi ekki valda þeim hugarangri yfir jólin. Hann hefði vitað það og haft orð á því á staðnum að þeim myndi líða illa, og hugsaði hann sérstaklega til móður sinnar.

Með Rambó-útbúnað

Það kom í ljós að Matthías Máni var vel búinn. Hann var í hlýjum fötum með bakpoka og bar með sér riffil með hljóðdeyfi.  Þá var hann að auki með þrjá hnífa, exi, sporjárn og hamar. Arnar Rúnar sagði að það mætti segja að hann hefði verið með Rambó-útbúnað. Matthías hafði náð sér í tæki og tól til þess að lifa af í náttúrunni og var einnig með matvæli með sér.

Arnar Rúnar segir að lögreglan hafi ekki haft neinar vísbendingar í sjálfu sér um dvalarstað Matthíasar, en að grunað hefði verið að hann væri í nágrenni Laugaráss, enda hefur Matthías tengsl við Suðurland og þekkir jafnvel betur þar til en á höfuðborgarsvæðinu. Matthías hafði meðferðis kort af Flúðum og nærsvæði.

Umhugsunarefni að hann var vopnaður

Aðspurður um hvort að það þyrfti að endurskoða búnað lögreglunnar í ljósi þess hversu vel vopnaður hann var sagði Arnar að það væri umhugsunarefni.

Arnar vildi nefna í þessu sambandi að björgunarsveitir hefðu verið með í leitinni, þrátt fyrir að þær væru óvopnaðar, vegna þess að hugsanlega var talið að eitthvað hefði komið fyrir Matthías. Þær hefðu verið í fylgd lögreglumanna sem hefðu haft varnarúrræði.  Þá var einnig talið hæpið vegna þess hversu stutt frá Litla-Hrauni leitað var að Matthías væri vopnaður og því ekki talið að verið væri að leggja menn í hættu. Í þessu samhengi væri rétt að taka fram að þegar lögreglan hefði farið í eitt húsnæði þar sem hann var talinn dveljast hefðu vopnaðir sérsveitarmenn verið með í för.

Arnar ítrekaði að það væri umhugsunarefni að lögreglumenn væru bara með kylfur og piparúða á móti byssum en að þessa umræðu þyrfti að taka mun dýpra, og að hún væri ekki bara bundin við Ísland.

Arnar tók fram að það hefði að vissu leyti komið á óvart að Matthías hefði orðið sér úti um vopn og að það þyrfti að rannsaka það hvernig hann hefði komist yfir þau, hvort að hann hefði stolið þeim eða hvort hann hefði átt sér vitorðsmenn. Þetta þyrfti að rannsaka. Arnar sagði að það væri ekki útilokað að Matthías Máni hafi átt sér vitorðsmenn utan fangelsisins.

Arnar sagði að fangelsismálayfirvöld þyrftu að svara því hvort að hann verði í einangrun fyrir flóttann, en að sér skildist að það væru einhver agaviðurlög við slíku.

Matthías Máni Erlingsson
Matthías Máni Erlingsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert