Þingmenn Suðurkjördæmis funduðu síðastliðinn föstudag ásamt sveitarstjóra Skaftárhrepps, tveimur sveitarstjórnarmönnum úr hreppnum, umhverfisráðherra og fulltrúa úr umhverfisráðuneytinu um sorpbrennsluna í Skaftárhreppi.
Að sögn Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, óskuðu þingmenn kjördæmisins eftir þessum fundi í ljósi synjunar umhverfisráðherra á undanþágu fyrir starfsleyfi sorpbrennslunnar. „Það var mjög fínt að ná þessum fundi og ég er allavega sannfærðari um það en áður að þetta er mál sem hægt er að leysa ef viljinn er fyrir hendi,“ segir Ragnheiður Elín og bætir við: „Umhverfisráðherra hefur það í hendi sér og hreppurinn hefur andmælarétt til 11. janúar.“
Þá segir Ragnheiður Elín að staða Skaftárhrepps í þessu máli sé sérstök, einkum í fjárhagslegu tilliti. „Þetta er svo sérstakt tilfelli, jafnvel þó að þessi reglugerð hafi gilt um fleiri stöðvar í Vestmannaeyjum og Ísafirði og þó að þau sveitarfélög séu búin að grípa til aðgerða þá er staða Skaftárhrepps einfaldlega svo sérstök og þá ekki síst í fjárhagslegu tilliti,“ segir Ragnheiður Elín og bætir við: „Þarna er pínulítið sveitarfélag sem berst í rauninni í bökkum með afar fáa íbúa og er undir handleiðslu eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga og er þar í góðu samstarfi við innanríkisráðuneytið og fulltrúa þess um að koma fjármálum sveitarfélagsins í gott horf.“
Að sögn Ragnheiðar Elínar er þetta hreinlega of stór baggi fyrir sveitarfélagið. Bendir hún þannig á að það muni reynast sveitarfélaginu mjög kostnaðarsamt að loka sorpbrennslustöðinni og slíkt verði til þess að sveitarfélagið geti ekki kynt sundlaugina, íþróttahúsið og skólahúsin á svæðinu nema með rafmagni, sem þau fái ekki niðurgreitt.