Breytingar á deili- og aðalskipulagi Reykjavíkur og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins vegna byggingar nýs Landspítala við Hringbraut hafa nú verið samþykktar á öllum vígstöðvum. Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa samþykkt svæðisskipulagið, eftir að það fór síðast í gegnum bæjarstjórn Seltjarnarness og aukafund í hreppsnefnd Kjósarhrepps.
Þó að búið sé að samþykkja breytt skipulag hjá sveitarfélögunum hefur það ekki gengið mótatkvæðalaust. Áhyggjum hefur verið lýst af byggingamagni á lóðinni og þungri umferð kringum spítalann og á helstu umferðaræðum. Við deiliskipulag Reykjavíkur bárust ríflega 800 athugasemdir frá almenningi. Minnihlutinn í borgarstjórn gagnrýndi við afgreiðslu málsins sl. fimmtudag að meirihlutinn virti að vettugi allar þessar athugasemdir.
Ekki hafa þó allir áhyggjur af aukinni umferð eða miklu byggingamagni. Meðal þeirra er Sigurður Einarsson arkitekt sem flutti erindi á samráðsþingi Nýs Landspítala nýverið. Hann segir umræðu um skipulagsmál vera fasta í nútíðinni og snúast alltof mikið um núverandi ástand umferðar, einkabílinn og mengun.
„Það er verið að skipuleggja spítala til næstu árhundraða og í mínum huga er alveg ljóst að við munum eins og allrar aðrar þjóðir þróa okkur út úr einkabílismanum sem hér hefur allt snúist um,“ segir Sigurður og bendir á þróun skipulagsmála í Bergen í Noregi, sem hann hefur aðeins komið að sem arkitekt. Hann segir Bergen svipa til höfuðborgarsvæðisins, bæði hvað varðar fólksfjölda og þéttingu byggðar, sem og veðurfars. Þar hafi miðborgin verið skipulögð upp á nýtt, með það fyrir augum að draga úr notkun einkabílsins sem allra mest. Léttlestakerfi ofanjarðar var tekið í gagnið, sem gengur úr úthverfunum í miðborgina og Sigurður segir það hafa gefist mjög vel. Á tveimur árum hafi notkun léttlestanna aukist mikið. „Það er einfalt að búa til braut fyrir þessar lestir. Þetta er kerfi sem stenst allar tímaáætlanir og er alveg óháð annarri umferð. Af hverju ætti þetta ekki alveg að vera hægt hér?“ spyr Sigurður.
Hann bendir jafnframt á að þjónustustigið í umferðarkerfinu hér á landi sé mjög hátt og þess vegna sé svo gott að vera með einkabíl.
Gagnrýni á skipulag spítalans hefur einnig snúið að byggingamagni á lóðinni en í fyrsta áfanga er áformað að byggja 76 þúsund fermetra húsnæði. Alls er reiknað með byggingamagni á Landspítalalóðinni upp á 290 þúsund fermetra. Sigurður segir áhyggjur af byggingamagni óþarfar. „Ef menn eru ekki að fara þeim mun hærra upp í loftið með byggingarnar, sem mér sýnist að sé ekki verið að gera, þá er það ekki spurning um fermetra á bak við framhliðina heldur hvaða yfirbragð þú hefur á byggingunum,“ segir hann og tekur aftur dæmi af miðborg Bergen. Þar voru reistar byggingar við gömlu höfnina, svonefnd bryggjuhús, með látlausri framhlið en þéttbyggðum massa af húsum þar bak við. „Þetta er ekki alltaf spurning um fermetra heldur yfirbragð,“ segir Sigurður.
Hann segir umhverfismál í sterkri sókn um allan heim og Íslendingar fái í raun margt gefins með þeirri þróun sem hefur átt sér stað annars staðar í heiminum.
„Menn eru alltaf að horfa 20 ár aftur í tímann og segja að hið sama gerist á næstu 20 árum. Það er að mínu mati hundalógík sem gengur aldrei upp.“