Katrín Fjeldsted, læknir og einn 25 fulltrúa stjórnlagaráðs, segir ýmsa reyna að hindra framgang frumvarps stjórnlagaráðs með útúrsnúningum og háði. Þjóðin eigi betra skilið.
Með því svarar hún þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á frumvarpið, m.a. af hálfu prófessoranna Gunnars Helga Kristinssonar og Sigurður Líndal. Salvör Nordal, formaður stjórnlagaráðs, baðst undan viðtali.
– Sigurður Líndal prófessor telur að draga þurfi tillögur stjórnlagaráðs til baka vegna þeirra athugasemda sem komið hafa fram. Hvernig bregstu við þessu?
„Allar vel rökstuddar athugasemdir er sjálfsagt að yfirfara enda hafa stjórnlagaráð svo og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis gert það. Vert er að minna á hve opið vinnuferli stjórnlagaráðs var og aðgengilegt fyrir alla á meðan á verkinu stóð. Ýmsar athugasemdir sem nú koma fram virðast gerðar til þess eins að hindra framgang málsins með útúrsnúningum og háði.
Almenningur í landinu, sem styður nýja stjórnarskrá, á slíkt ekki skilið.“
– Sigurður segir frumvarpið ýta undir réttaróvissu, það sé sundrungarplagg. Þá hafi stjórnlagaráð ekki náð lykilmarkmiðum, t.d. með aðskilnaði löggjafar- og framkvæmdavalds. Hvernig bregstu við þessu?
„Lykilmarkmið stjórnlagaráðs var að vinna það verk sem Alþingi fól því með samhljóða atkvæðum 28. september 2010, að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þetta gerði stjórnlagaráð og lagði fram frumvarp að stjórnarskrá sem þjóðin gæti sameinast um, en ekki til að sundra henni. Aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds er mun skýrari í nýrri stjórnarskrá en þeirri sem nú gildir og miðar að því að styrkja löggjafann gagnvart framkvæmdavaldinu. Allar breytingar á stjórnarskrá, hvar í heimi sem er, ýta undir réttaróvissu og það er löggjafans og dómstóla að eyða henni.“
– Gunnar Helgi segir stjórnlagaráð hafa verið umboðslaust og að það hafi útvíkkað verkefni sitt stórlega?
„Stjórnlagaráð var fjarri því að vera umboðslaust heldur var það þingskipuð nefnd þeirra einstaklinga sem höfðu áður verið kjörnir af þjóðinni í atkvæðagreiðslu á landsvísu.
Stjórnlagaráð skrifaði ekki nýja stjórnarskrá frá grunni, fjölmargar greinar eru óbreyttar. Hins vegar var okkur ljóst að ýmsu þyrfti að breyta til hins betra til að efla lýðræði í landinu. Breytingar þær sem gerðar voru miða einmitt að því.“
– Gunnar Helgi segir fulltrúa stjórnlagaráðs hafa fallist á að afgreiða allt í samstöðu og að þess vegna hafi útkoman verið óskalisti sem endurspegli sérvisku þeirra sem í hlut áttu. Hvernig svararðu því?
„Stjórnlagaráð stefndi að því að ná samstöðu um frumvarp að nýrri stjórnarskrá en ekki var ljóst fyrr en undir lokin að það tækist.
Vinnubrögð stjórnlagaráðs voru að mínu áliti til fyrirmyndar. Óskandi væri að fulltrúar okkar á Alþingi tileinkuðu sér þau. Þjóðin á það skilið.“
– Sigurður Líndal víkur að 34. greininni um náttúruauðlindir þar sem segir að auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, séu sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Afstaða Sigurðar er að þjóð geti ekki verið aðili að eða handhafi eignarréttar. Ákvæðið sé mótsagnakennt. Hvernig bregstu við þessu?
„Það er auðskiljanlegt öllum almenningi að auðlindir í náttúru Íslands eigi að vera sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Þjóðin á þegar ýmislegt svo sem þjóðgarða, þjóðlendur og Þjóðleikhús. Ég sé ekki að þetta þurfi að vefjast fyrir lögspekingum. Þetta er íslenska.“
– Sigurður gagnrýnir jafnframt hversu langt stjórnlagaráð gangi í að opna heimildir til að krefjast þjóðaratkvæðis. Það veiki stöðu Alþingis. Hvernig bregstu við því?
„Stjórnlagaráð taldi mikilvægt að gera stjórnsýsluna gagnsærri, efla Alþingi en jafnframt gera almenningi kleift að skipta sér af því sem þyrfti hverju sinni. Í núverandi stjórnarskrá er það forseti Íslands einn sem getur vísað málum til þjóðaratkvæðis. Ég tel ekki að aðkoma almennings veiki stöðu Alþingis, en hins vegar geta slíkar heimildir verið aðhald fyrir þingið ef gjá myndast milli þings og þjóðar,“ segir Katrín.