Ófremdarástand ríkir nú í heilsugæslu á Norðurlandi, en um 4.000 manns eru án heimilislæknis. Margrét Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri, segir að þörf sé á minnst þremur læknum til viðbótar til að anna eftirspurn, en í augnablikinu eru 11 læknar starfandi við HAK.
Fyrst var greint frá málinu á vef Vikudags á Akureyri
„Okkur vantar nauðsynlega lækna til starfa. Vegna fjárskorts höfum við ekki getað ráðið til okkar starfsfólk eftir því sem við höfum þurft. Nú spilar líka inn í að ekki er heldur auðvelt að fá lækna til starfa,“ segir Margrét.
Hún segir ástandið í þéttbýliskjörnum víða um land slæmt, og verra á Akureyri en í höfuðborginni. „Við höfum verið á svipuðu róli og Reykjavík hvað þetta varðar. Lengi hefur verið talað um hvað staðan er slæm í heilsugæslumálum á höfuðborginni og nú er svo komið að ástandið er orðið ívið verra hér, og færri læknar við störf,“ segir Margrét en að hennar sögn er bið eftir tíma hjá heimilislækni að meðaltali 5 virkir dagar. „Dæmi eru um lækna sem hafa haft 2-3 vikna biðtíma allt árið,“ segir hún.
„Fjölgun lækna í sérnámi til heimilislæknis hefur ekki skilað sér til okkar, þeir hafa ekki ratað í nægilega miklum mæli hingað norður,“ segir Margrét.
Fólk leitar annað
Að hennar sögn vantar 50 milljónir upp á að hægt sé að sinna aðkallandi verkefnum og ráða nýtt fólk til starfa. „Málið hefur farið í gegnum tvær umræður og ég veit ekki hvernig þetta mun enda í þeirri þriðju, ég er ekki búin að sjá lokaniðurstöðu fjárlaga. Ef þetta næst ekki mun þetta erfiða ástand halda áfram,“ segir Margrét.
„Mikið álag er á þeim sem fyrir eru, erfitt er að fá tíma og það molnar smátt og smátt undan heilsugæsluhugmyndafræðinni. Fólk leitar annað því þörfin minnkar ekkert. Fólk leitar þá bara í dýrari úrræði, til sérfræðilækna og á spítalann á bráðadagvakt,“ segir Margrét og bætir við að álag á þessa staði hafi stóraukist vegna ástandsins.