Jól í skugga jólatrésþjófnaðar

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.

Fyrstu jól Björns Vals Gíslasonar, þingmanns VG, með eiginkonu sinni voru haldin í skugga glæps sem Björn Valur framdi óafvitandi, en hann var narraður til að stela jólatré.

Á bloggsíðu sinni segist Birni Val svo frá að honum hafi verið falið af tengdafjölskyldu sinni að sjá henni fyrir jólatré. Vinur hans nokkur bauðst til að fara með hann upp í Heiðmörk í þessu skyni og þáði Björn Valur, sem var lítt kunnugur staðháttum enda úr Ólafsfirði, boðið með þökkum.

Fann lítið tré og vel vaxið til jóla

„Eftir talsverða leit finn ég tré, lítið og vel vaxið til jóla og byrja að höggva. Um það leyti sé ég hjón með hund standa álengdar og horfa á mig. Karlinn kallar eitthvað til mín sem ég heyrði ekki hvað var. Hann leggur svo af stað til mín og ég veifa öxinni í átt til hans glaður í bragði enda kominn í jólaskap. Þá heyri ég konu hans kalla á hann og þau hverfa í burtu með hundinn,“ skrifar Björn Valur. 

Á leiðinni úr Heiðmörk skýrir vinurinn honum frá því að stranglega hafi verið bannað að höggva tré í Heiðmörk, enda sé þar vernduð skógrækt. „Karlinn með hundinn hafi verið frekar æstur og verið að reyna að kalla til mín að þetta væri bannað en konu hans ekki litist á þegar ég veifaði öxinni í átt að honum. Ég hafði verið hafður að fífli og það hvorki í fyrsta né síðasta sinn.“

Þeir þóttust hneykslaðir

„Tréð fór upp í stofuna og hafði verið skreytt upp úr og niður úr þegar tengdamamma kom heim um að kvöldi Þorláksmessu. Ég hafði borið þá von í brjósti að synir hennar myndu þegja yfir því hvernig það var til komið en þar ætlaðist ég til of mikils af þeim. Á sjálfan aðfangadag, rétt áður en klukkur Ríkisútvarpsins hringdu inn jólin er tengdamóðir mín var að dást að trénu (sem var fallegt og ilmandi), töldu þeir að rétta stundin væri runnin upp til að tilkynna henni að tréð væri stolið og þjófurinn væri verðandi tengdasonur hennar. Þeir þóttust hneykslaðir.

Öll jólin mátti þessi góða og guðhrædda kona búa við stolið jólatré í stofunni sinni af mínum sökum. Ég sá um tíma engan mun á augnaráðinu sem hún sendi trénu annars vegar og mér hins vegar. Tréð var saklaust en ég átti það skilið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert