Spáð er norðlægri átt, 8-12 m/s á gamlársdag. Éljum norðanlands, en bjartviðri sunnan til á landinu. Frost verður 1-12 stig, kaldast inn til landsins.
Á nýársdag er útlit fyrir norðlæga eða breytilega átt. Stöku él norðanlands, en annars þurrt að mestu. Kalt verður í veðri.
Á morgun, fimmtudaginn 27. desember, mun hlýna og verður hiti um eða undir frostmarki. Gengur í austan 13-20 m/s sunnan til á landinu síðdegis með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu, en suðaustan 5-10 norðan til á landinu og styttir upp.
Að öðru leyti er veðurspáin þá fáu daga sem eftir eru af árinu svohljóðandi, samkvæmt Veðurstofu Íslands:
Á föstudag:
Austlæg átt 8-13 m/s og rigning eða slydda með köflum, hiti um og yfir frostmarki. Gengur í norðaustanstorm á Vestfjörðum um kvöldið með snjókomu og kólnar.
Á laugardag:
Norðanstormur um landið norðvestanvert, en mun hægari suðaustan til. Talsverð snjókoma um landið norðvestanvert, slydda austanlands, en úrkomulítið á Suðurlandi. Kólnandi veður. Dregur úr vindi og ofankomu norðvestan til um kvöldið, en hvessir norðaustan til með snjókomu.
Á sunnudag:
Minnkandi norðanátt, en norðvestan hvassviðri eða stormur norðaustantil fram á kvöld. Snjókoma norðan- og norðaustantil, en úrkomulítið sunnan- og vestanlands. Frost 1 til 8 stig.