Kunna vel við sig á Íslandi

Afgönsku konurnar hafa að sögn haft orð á því að …
Afgönsku konurnar hafa að sögn haft orð á því að jólaljósin í Reykjavík séu falleg. mbl.is/Árni Sæberg

Þrjár einstæðar mæður frá Afganistan sem komu hingað til lands ásamt börnum sínum í október kunna vel við sig á Íslandi eftir fyrstu mánuðina.

„Þær eru ofboðslega jákvæðar og eru byrjaðar í íslenskunámi sem gengur mjög vel. Þær eru farnar að geta gert sig skiljanlegar og halda uppi samræðum,“ segir Marín Þórsdóttir, verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands.

Þrjár einstæðar mæður

Síðdegis í dag var undirritaður samstarfssamningur milli Rauða kross Íslands og velferðarráðuneytisins um móttöku og þjónustu við flóttafólk frá Afganistan. Um er að ræða þrjár einstæðar mæður ásamt börnum þeirra á aldrinum 5 til 21 árs sem komu hingað til lands í boði ríkisins. Konurnar eru frá Afganistan en voru búsettar í Íran ásamt börnum sínum.

Fjölskyldurnar teljast s.k. kvótaflóttafólk, samkvæmt skilgreiningu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem þýðir að þær höfðu fengið viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamenn utan heimalands af ástæðuríkum ótta við ofsóknir. Síðast kom kvótaflóttafólk til Íslands árið 2010, þá frá Kólumbíu, en þetta er í fyrsta sinn sem tekið er á móti hópi frá Afganistan.

Fjölskyldurnar eru búsettar í Reykjavík og hafa börnin verið í aðlögun í skólum en mæðurnar hafa lokið sínu fyrsta íslenskunámskeiði. Rauði krossinn annast aðstoð við fjölskyldurnar sem felst m.a. í því að útvega þeim innbú og fatnað og að koma á sambandi við íslenskar stuðningsfjölskyldur.

Skiptir máli að eignast vini

Að sögn Marínar líkar fjölskyldunum vel. Þær hafa notið jólafrísins og haft orð á því að jólaljósin séu falleg í myrkrinu. En viðbrigðin eru mikil. „Þetta er ofboðslega mikil breyting. Þetta er ekki auðvelt, að venda sínu kvæði svona algjörlega í kross.“

Konurnar völdu Ísland ekki sjálfar sem áfangastað og var því þeirra fyrsta verk, þegar þær heyrðu hvert þær fengju að fara með börn sín, að leita sér að upplýsingum um Ísland á netinu. 

„Þetta eru kraftakerlingar. Þær eru duglegar að bjarga sér og það er stór hópur íslenskra stuðningsfjölskyldna sem auðveldar þeim lífið. Þessi sjálfboðaliðahópur er þeirra stuðningsnet í ókunnugu landi.“ Stuðningsfjölskyldurnar eru flóttafólkinu innan handar við allt mögulegt, allt frá því að sýna þeim hvar ódýrast er að kaupa í matinn og hvernig best er að taka strætó, til þess að vera einfaldlega vinir og félagsskapur. 

„Það skiptir líka máli að hafa einhvern til að bjóða í kaffibolla eða koma í heimsókn,“ segir Marín. Verkefnið stendur í 12 mánuði en að hennar sögn myndast oft sterk tengsl sem vara áfram. 

„Oft og tíðum myndast góður vinskapur sem verður áfram til staðar og það er það sem okkur finnst best, að hópurinn myndi tengsl við samfélagið. Með þessu er verið að létta á kerfinu síðar meir. Þegar búið er að aðstoða þær við að komast almennilega inn í samfélagið strax þá þurfa þær minna á kerfinu að halda seinna meir.“

Þrjár flóttafjölskyldur frá Afganistan

Marín Þórsdóttir er verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins.
Marín Þórsdóttir er verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
Konur í Helmand héraði í Afganistan bíða eftir hjálpargögnum frá …
Konur í Helmand héraði í Afganistan bíða eftir hjálpargögnum frá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert