Ríkisstjórnin samþykkti 16. nóvember síðastliðinn tillögu ráðherra um að greiða út desemberuppbót, þriðja árið í röð, til atvinnulausra.
Uppbótin var greidd til þeirra sem skráðir voru atvinnulausir og í virkri atvinnuleit á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember í hlutfalli við þann tíma sem viðkomandi voru atvinnulausir. Þeir sem höfðu því verið atvinnulausir 10 mánuði eða lengur fengu fulla uppbót, kr. 50.152, en þeir sem höfðu verið atvinnulausir í fjóra mánuði, sem dæmi, fengu 40% af upphæðinni. Lágmarksuppbót til þeirra sem áttu hlutfallslegan rétt var 12.538 kr.
Þeir sem voru hluta ársins á vinnumarkaði áttu að auki rétt á hlutfallslegri greiðslu desemberuppbótar frá viðkomandi atvinnurekanda samkvæmt kjarasamningi. Í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að þetta hafi hins vegar ekki átt við um þá sem voru atvinnulausir fyrrihluta ársins, jafnvel þótt þeir hafi verið atvinnulausir fyrstu tíu mánuði ársins eða lengur. Þeir öðlast ekki réttar til desemberuppbótar, hún er einungis greidd þeim sem eru atvinnulausir þessa umræddu daga.