„Við stefnum að því að þetta bæti þjónustuna og jafni aðgengi að þjónustunni fyrir bændur hvar sem er á landinu.“
Þetta segir Eiríkur Blöndal, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands og stjórnarformaður Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins ehf., sem mun frá 1. janúar taka yfir alla ráðgjafarþjónustu við bændur í landinu af hendi búnaðarmiðstöðva og Bændasamtaka Íslands.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Eiríkur auk þess markmiðið að auka sérhæfingu og framboð sérhæfðrar þjónustu. Markmiðin með fyrirkomulaginu eru meðal annars að allir bændur eigi kost á sambærilegri ráðgjöf af sömu gæðum án tillits til búsetu eða búgreinar. En einnig að leiðbeiningaþjónustan sé aðlöguð breyttum kröfum og þörfum bænda.