Lárus Welding, fv. bankastjóra Glitnis, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í níu mánuði, sex mánuði skilorðsbundið. Farið var fram á fimm og hálfs árs fangelsi yfir honum, og fimm ára fangelsi yfir Guðmundi Hjaltasyni, fv. framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs. Guðmundur fékk sama dóm og Lárus.
Lárus og Guðmundur voru ákærðir fyrir að hafa tekið ákvörðun um að lána Milestone 102 milljónir evra, sem þá var um tíu milljarðar króna, í formi peningamarkaðsláns 8. febrúar 2008. Lánið hafi verið veitt án veða og trygginga, og ákvörðun tekin utan funda áhættunefndar bankans. Þeir neituðu báðir sök.
Saksóknari í málinu sagði við aðalmeðferð að sannað væri að Lárus og Guðmundur hefðu brotið gegn lánareglum bankans með lánveitingunni. Brotin felist í því að þeir misnotuðu aðstöðu sína innan bankans og væri um alvarlegt trúnaðarbrot að ræða, heimildarlausa ráðstöfun á gríðarlegum fjármunum sem leitt hefði til fjártjónshættu fyrir bankann og langstærsti hluti lánsins sé tapaður.
Verjandi Lárusar sagði hins vegar að ekkert vitni sem kom fyrir dóminn hafi geta staðfest að Lárus og Guðmundur hafi eitthvað með lánveitinguna að gera. „Sönnunarbyrðin hvílir á ákæruvaldinu og þeir verða aðeins sakfelldir ef það er hafið yfir allan vafa að þeir hafi tekið ákvörðun um að lána Milestone. Ákæruvaldið fær engan afslátt af sönnunarkröfum í málinu.“