Glæpum fækkar í höfuðborginni

Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu að störfum.
Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu að störfum. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hegningarlagabrotum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um 12% milli ára 2011 og 2012 samkvæmt bráðabirgðasamantekt lögreglustjóra.  Innbrotum fækkaði um þriðjung, kynferðisbrotum um 29% og ofbeldisbrotum um 4%. Hins vegar fjölgaði fíkniefnabrotum um 9% auk þess sem fleiri óku of hratt og í vímu.

Þótt um bráðabirgðatölur sé að ræða segir í skýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að þær ættu þó að gefa innsýn í hver staðan verður þegar árið 2012 verður gert upp. Þegar öll skráð brot á höfuðborgarsvæðinu eru skoðuð kemur fram að hegningarlagabrotum fækkaði um 12% frá árinu á undan. 

Ekki færri innbrot síðan talningar hófust

Þar munar mest um fækkun þjófnaða, en 600 færri slík brot voru skráð í ár en í fyrra. Innbrotum fækkaði um þriðjung milli ára, eða 500 í brotum talið og hefur verulegur árangur náðst í baráttunni gegn þeim síðustu ár þegar litið er til þess að árið 2009 voru framin þrefalt fleiri innbrot á höfuðborgarsvæðinu en í ár. Raunar hafa innbrot ekki verið færri á ári frá því talningar hófust hjá lögreglunni, en að meðaltali voru framin 2-3 innbrot á dag, samanborið við 4 á dag í fyrra og 8 á dag árið 2009.

Kynferðisbrotum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði nokkuð í ár, eða um 29% en ofbeldisbrotum fjölgaði hins vegar um 4%. Tæplega 40% allra líkamsárása á árinu átti sér stað í miðborg Reykjavíkur, þar af þriðjungur í kringum skemmtanahald eftir miðnætti um helgar. Að meðaltali var tilkynnt um 13 líkamsárásir í hverri viku á árinu sem er að líða.

Umferðarlagabrotum fjölgaði á milli ára á höfuðborgarsvæðinu, einkum hraðakstursbrotum en einnig brotum vegna ölvunar eða annarrar vímu við akstur. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna hefur færst í aukana ár frá ári að sögn lögreglu. Þá óku fleiri hratt í ár en í fyrra. Umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði engu að síður um 10% frá árinu á undan og voru alls 331 árið 2012, eða um eitt á dag að meðaltali.

Mun minna haldlagt af fíkniefnum

Mesta aukningin milli ára varð í fíkniefnabrotum, sem fjölgaði um 9%. Oftast var um að ræða mál sem varða vörslu og meðferð fíkniefna, en málum tengdum framleiðslu fíkniefna fækkaði eftir að hafa tekið mikinn kipp á síðustu árum.

Lögreglan og tollgæsla lagði hald á mun minna magn af öllum helstu fíkniefna árið 2012 en árið á undan. Mest var minnkun á magni amfetamíns, því árið 2011 var lagt hald á 31 kíló af amfetamíni en 7 kíló í ár. Um 100 E-töflur voru haldlagðar á árinu samanborið við hátt í 50.000 í fyrra. Mun minna magn af kannabisefnum var einnig haldlagt.

Lagt var hald á um 100 e-töflur á höfuðborgarsvæðinu árið …
Lagt var hald á um 100 e-töflur á höfuðborgarsvæðinu árið 2012, samanborið við hátt í 50.000 í fyrra.
Tæplega 40% allra líkamsárása á árinu átti sér stað í …
Tæplega 40% allra líkamsárása á árinu átti sér stað í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert