Gylfi Zoëga, hagfræðingur við Háskóla Íslands hlaut í dag heiðursverðlaun fyrir árið 2012 úr verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright.
„Í aðdraganda og kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008 varð mikil umræða um gjaldmiðilsmál, verðbólgu, vexti og áhrif gengis á verðlag. Margir erlendir hagfræðingar voru kallaðir til. En brátt kom í ljós að Ísland átti hæfa hagfræðinga sem gátu leiðbeint ekki aðeins nemendum sínum, heldur bæði stjórnvöldum og almenningi.
Síðan þá hefur Gylfi Zoëga gefið fjölda viðtala og veitt almenningi aðgengilega fræðslu um hagfræðileg málefni.
Gylfi hefur meðal annars fjallað um kosti og galla sjálfstæðrar peningastefnu, vanda okkar gagnvart spákaupmönnum á gjaldeyrismarkaði, stöðu evrunnar og vanda evruríkjanna. Hann hefur lýst því hvernig innflæði erlends lánsfjár orsakaði góðæri áranna fyrir fjármálaáfallið árið 2008 og útflæði þá kreppu sem hér hefur verið undanfarin ár.
Gylfi hefur fært rök að því að takmarka þurfi kvikar fjármagnshreyfingar milli landa vegna þess að þær séu uppspretta óstöðugleika og einnig þurfi að takmarka möguleika einstaklinga og fyrirtækja til þess að taka lán í erlendum gjaldmiðlum. Jafnframt þurfi að draga úr áhættusömum fjárfestingum viðskiptabanka. Hefur hann haldið því fram að samstarf Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafi hjálpað landinu úr ógöngum. Sjóðurinn hafi gætt þess að heilsteyptri efnahagsstefnu væri fylgt en slíka samhæfingu hafi löngum skort,“ segir í tilkynningu frá stjórn Ásusjóðs.
Gylfi Zoëga er fæddur 14. febrúar 1963. Foreldrar hans eru Gunnar Geirsson Zoëga og Hebba Herbertsdóttir. Eiginkona Gylfa er Marta Guðrún Skúladóttir og eiga þau þríbura syni.
Í nýlegri grein sinni „Market Forces and the Continent‘s Growth problem“ dregur Gylfi þá ályktun að framhalds menntun, sveigjanleiki vinnumarkaðar og vel þroskaður hlutabréfamarkaður virðist stuðla best að aukinni framleiðni.
Gylfi hefur nýlega birt greinina „A Spending Spree“ í bókinni Preludes to the Icelandic Financial Crisis. Þar fjallar hann um hve einstakt það var að hlutfallslega stórir bankar voru myndaðir í landi þar sem lítil hefð var fyrir nútíma bankastarfsemi.
Þar leggur hann til að í framtíðinni þegar horft er til baka væri Íslendingum hollt að hlýða boðskap Hávamála.
Verðlaun úr sjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright eru veitt íslenskum vísindamanni, sem náð hefur framúrskarandi árangri á sérsviði sínu í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi.
„Gylfi Zoëga prófessor á að baki glæstan feril sem vísindamaður á sviði hagfræði og hann hefur jafnframt sýnt frábæran dugnað í að koma niðurstöðum rannsókna sinna á framfæri til almennings. Fyrir það hlýtur hann Ásuverðlaun Vísindafélags Íslendinga fyrir árið 2012,“ segir enn fremur í tilkynningu.
Verðlaunasjóður Ásu Guðmundsdóttur Wright, Ásusjóður var stofnaður á hálfrar aldar afmæli Vísindafélags Íslendinga árið 1968. Sjóðinn stofnaði Ása til minningar um eiginmann sinn, ættingja og aðra venslamenn.
Ása Guðmundsdóttir Wright fæddist á Íslandi árið 1892. Kynntist hún enskum manni, lögmanninum dr. Henry Newcomb Wright sem hún gekk að eiga.
Ása og eiginmaður hennar, settust að á Trinidad í Vestur-Indíum í lok síðari heimsstyrjaldarinnar, en eyjan var þá bresk nýlenda. Þar áttu þau og ráku plantekru sem síðar var friðlýst vegna stórbrotinnar náttúru og sérstæðs fuglalífs og heitir nú Asa Wright Nature Centre.
Þegar Ása seldi búgarðinn sá hún um að andvirði eignarinnar yrði meðal annars varið til stofnunar þessa verðlaunasjóðs í tengslum við Vísindafélag Íslendinga, sem undanfarin 44 ár hefur veitt viðurkenningu Íslendingi, sem unnið hefur veigamikið vísindalegt afrek á Íslandi eða fyrir Ísland.
Eru nú í stjórn sjóðsins þeir; Prófessor Sveinbjörn Björnsson; Prófessor Þráinn Eggertsson og Sigrún Ása Sturludóttir, M.Sc., sem er stjórnarformaður. Hollvinir sjóðsins eru Alcoa Fjarðaál og HB Grandi.
Verðlaunin eru heiðursskjal og silfurpeningur með lágmynd Ásu og merki Vísindafélags Íslendinga, nafn þiggjanda og ártal er grafið í jaðarinn og fylgir í ár þriggja milljón króna peningagjöf.