Stjórnendur Seðlabanka Íslands vilja ekkert segja um gang rannsóknar bankans á meintum brotum Samherja á lögum um gjaldeyrismál.
Seðlabankinn fékk heimild til húsleitar hjá Samherja, en húsleitirnar fóru fram 27. mars, fyrir níu mánuðum síðan. Engin ákæra hefur verið gefin út.
Mbl.is óskaði í dag eftir upplýsingum um gang rannsóknarinnar og hvenær væri líklegt að henni myndi ljúka. Engar upplýsingar fengust frá bankanum. Það eina sem Seðlabankinn var tilbúinn til að segja var: „Seðlabanki Íslands tjáir sig ekki um framvindu þeirra mála sem til rannsóknar eru hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans.“
Stjórnendur Samherja gagnrýna harðlega þann drátt sem hafi orðið á rannsókninni. Þeir segja óásættanlegt að rannsókn Seðlabanka Íslands hvíli sem skuggi á fyrirtækinu. Henni verði að ljúka.