Sjö þúsund ferðamenn til landsins

mbl.is

Þriðjungi fleiri ferðamenn munu fljúga til Íslands með Icelandair um áramótin til þess að njóta þeirra tímamóta hér á landi en á sama tíma í fyrra samkvæmt upplýsingum frá félaginu. Samtals er um að ræða sjö þúsund ferðamenn sem fluttir voru til landsins í gær, í dag og verða fluttir til landsins á næstu dögum en í fyrra voru þeir um 5.300. Þá er flug Icelandair um 20% meira í desember í ár en á sama tíma fyrir ári.

Um er að ræða fjölgun ferðamanna frá öllum helstu mörkuðum erlendis að sögn Birkis Hólm Guðnasonar, framkvæmdastjóra Icelandair. Stærsti markaðurinn er hins vegar sem fyrr Bretland en þaðan koma nær tvö þúsund manns. Ennfremur er aukning mikil frá Bandaríkjunum sem er næst stærsti markaðurinn. Meira en 1.500 Bandaríkjamenn verða á Ísland um áramótin.

Þriðji stærsti hópurinn er Þjóðverjar en um 700 ferðamenn koma þaðan til landsins um áramóti. Það er um 70% aukning. Sprenging er síðan í komu Japana til landsins en þeir verða um 400 talsins. Japanir eru þar með orðnir fimmti fjölmennasti hópur erlendra ferðamanna sem kemur til landsins yfir áramót sé horft til þjóðernis ferðamanna. Þá eru öll hótel Icelandair fullbókuð um áramótin að sögn Magneu Þóreyjar Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Icelandair hótelanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert