Útlit fyrir töluvert svifryk á nýársnótt

Svifryk (PM10) fór átta sinnum yfir sólarhringheilsuverndarmörk árið 2012. Núna er búist við hægum vindi og þurrviðri í Reykjavík á áramótum og því eru líkur á töluverðri svifryksmengun á nýársnótt, að sögn Önnu Rósu Böðvarsdóttur heilbrigðisfulltrúa hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Styrkur svifryks í Reykjavík var 61 míkrógrömm á rúmmetra á nýársnótt 2012. Styrkurinn var undir mörkum árið 2011 en 225 míkrógrömm á rúmmetra árið 2010. Heilsuverndarmörkin á sólarhring eru 50, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Hávaði vegna flugelda verður oft feikilega mikill. Foreldrar ættu að gæta að börnum sínum því þau eru viðkvæmari en fullorðnir fyrir hávaða og gæludýraeigendur að dýrum sínum. Sum dýr geta orðið skelfingu lostin þegar flugeldakökur eru sprengdar í húsagötum borgarinnar. Æskilegra er að safnast saman fjarri húsum og sprengja á opnum svæðum. Fólk sem er viðkvæmt fyrir svifryki og hávaða ætti að vera inni þegar mest gengur á um miðnætti og loka gluggum,“ segir í tilkynningu frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert