Óveður er á Vestfjörðum, Norðvesturlandi austur yfir Tröllaskaga og við Breiðafjörð. Ekki fer að draga úr veðurofsanum að neinu ráði fyrr en í kvöld.
Á norðaustanverðu landinu er vindur víða norðan 10-15 m/s en hvessir í 13-20 m/s í kvöld. Á öllu norðanverðu landinu er snjókoma og skafrenningur og takmarkað skyggni á vegum. Einnig á norðanverðu Snæfellsnesi, í Dölum og einnig í Borgarfirðinum.
Sunnanlands er snjómugga á fjallvegum en krapi á láglendi, og vindhviður á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli eru allt að 30-40 m/s.
Vegna snjóflóðahættu er lokað á Vestfjörðum um Súðavíkurhlíð, Eyrarhlíð, Botnsdal, Breiðadal og Flateyrarveg en á Norðurlandi bæði um Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla.
Á Suðurlandi er sumstaðar krapi eða nokkur hálka. Hálka er á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka er á milli Hafna og Grindavíkur en hálkublettir á Suðurstrandarvegi. Hvassar vindhviður eru á Kjalarnesi. Leiðinda krapi er á Mosfellsheiði.
Óveður er víða á Snæfellsnesi og ekkert ferðaveður. Fróðárheiði er ófær og þar er stórhríð. Á Holtavörðuheiði er hálka og óveður en snjóþekja og óveður á Bröttubrekku og á köflum í Dölum. Ófært er yfir Laxárdalsheiði og Svínadal.
Á Vestfjörðum er ekkert ferðaveður og vegir meira eða minna lokaðir og ófærir.
Óveður er í Húnavatnssýslum og Skagafirði, og sumstaðar hált. Ófært er yfir Þverárfjall en á Vatnsskarði er hálka og óveður. Ófært er frá Hofsósi út í Fljót en síðan er Siglufjarðarvegur lokaður utan Fljóta vegna snjóflóðahættu, og Ólafsfjarðarmúli sömuleiðis. Óveður er í Héðinsfirði. Öxnadalsheiði er ófær og þar er stórhríð.
Víða er ofankoma á Norðurlandi eystra. Þæfingsfærð er á Víkurskarði og skafrenningur. Ófært er á Hólasandi og eins á Hálsum og Hófaskarði. Snjóþekja og skafrenningur er á Mývatnsöræfum.
Á Austurlandi er varað við flughálku í Jökulsárhlíð, á Hróarstunguvegi, Borgarfjarðarvegi og eins innan Úlfsstaða.
Annars er víða hálka á Austurlandi en aftur á móti eru vegir auðir á Suðausturlandi.