Óveðursspáin að ganga eftir

Það er snjóþungt í Bolungarvík.
Það er snjóþungt í Bolungarvík. mbl.is/Kristján Jónsson

Óveðurs­spá­in á land­inu virðist vera að ganga eft­ir í öll­um aðal­atriðum og nær veður um norðvest­an­vert landið há­marki um miðjan dag­inn í dag, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá veður­fræðingi hjá Vega­gerðinni. Áfram verður hríðarveður og skafrenn­ing­ur með litlu skyggni í all­an dag. 

Aust­an til á Norður­landi verður vind­ur hæg­ari, 13-18 m/​s, og hríð á fjall­veg­um ofan 200-300 metra en krapi á lág­lendi. Skörp skil vinds og hita verða lengst af við Eyja­fjörð, en norðaust­an til kóln­ar og hvess­ir  með kvöld­inu. Snjóm­ugga verður áfram á fjall­veg­um suðvest­an­lands en krapi á lág­lendi. Hvess­ir með krapa og hríð í Borg­ar­f­irði og með élj­um upp úr há­degi suðvest­an­lands. Vind­hviður áætlaðar 30-40 m/​s á Kjal­ar­nesi frá því um miðjan dag.

Ferðalang­ar hafi var­ann á

Veður­stofa Íslands var­ar við roki eða ofsa­veðri, 25-33 m/​s frá Faxa­flóa til Trölla­skaga í dag. Á Vest­fjörðum geis­ar ofsa­veður sem fær­ist aust­ur eft­ir Norður­landi eft­ir því sem líður á dag­inn. Veðrið mun ekki ganga niður fyrr en aðfaranótt sunnu­dags. Því fylg­ir mik­il ofan­koma og fann­b­urður í skafrenn­ingi.

Snjóflóðasér­fræðing­ar Veður­stofu benda ferðalöng­um því á að hafa var­ann á þegar farið er um svæði þar sem snjóflóð geta fallið. Hús hafa verið rýmd í fimm byggðakjörn­um á Vest­fjörðum. 18 til­kynn­ing­ar um snjóflóð á Vest­fjörðum hafa borist síðustu tvo sól­ar­hringa.

Ýmist lokað eða ófært

Vegna snjóflóðahættu er lokað á Vest­fjörðum um Súðavík­ur­hlíð, Eyr­ar­hlíð, Botns­dal, Breiðadal og Flat­eyr­ar­veg en á Norður­landi bæði Siglu­fjarðar­veg og Ólafs­fjarðar­múla. Þess utan er ekk­ert ferðaveður á Vest­fjörðum og veg­ir meira eða minna lokaðir vegna ófærðar.

Það sama á við víða á Norður­landi, en óveður er í Húna­vatns­sýsl­um og Héðins­firði. Ófært er yfir Þver­ár­fjall en á Vatns­skarði er hálka og skafrenn­ing­ur. Siglu­fjarðar­veg­ur er lokaður utan Fljóta vegna snjóflóðahættu og Ólafs­fjarðar­veg­ur sömu­leiðis. Öxna­dals­heiði er ófær og þar er stór­hríð. Á Fljóts­heiði er einnig stór­hríð og ófært á Hólas­andi sem og aust­ur á Háls­um og Hófa­sk­arði. Ekki er vitað um færð á Mý­vatns­ör­æf­um, en þar er slæmt veður og eng­in þjón­usta í dag.

Óveður er víða á Snæ­fellsnesi. Fróðár­heiði er ófær og þar er stór­hríð. Á Holta­vörðuheiði er hálka og óveður en snjóþekja og óveður á Bröttu­brekku og í Döl­um. Svínadal­ur­inn er ófær.

Þung­fært á Suður­landi og hálka á Aust­ur­landi

Á Suður­landi er víða krapi eða nokk­ur hálka. Það er ofan­koma á Hell­is­heiði og í Þrengsl­um og snjóþekja eða krap. Eins er krapi á Reykja­nes­braut og flest­um veg­um á Suður­nesj­um. Þung­fært er á milli Hafna og Grinda­vík­ur og eins á Suður­strand­ar­vegi en þarna er verið að moka.

Þæf­ings­færð er á Vopna­fjarðar­heiði og Möðru­dals­ör­æf­um en varað er við flug­hálku á Jök­ul­dal og að Eg­ils­stöðum. Ann­ars er víða hálka á Aust­ur­landi en veg­ir eru auðir á Suðaust­ur­landi.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert