„Hann kemur inn, grípur slökkvitæki og ógnar okkur með því. Hann krafðist þess svo að fá peninga úr kassanum,“ segir Kristján Helgi Magnússon, afgreiðslumaður hjá tölvuleikjamiðstöðinni Ground Zero við Frakkastíg, en þar var gerð tilraun til ráns á fjórða tímanum í dag.
Kristján Helgi beið ekki boðanna heldur greip til vopna til að bægja ræningjanum á brott. „Ég greip í öxi og sagði honum að hypja sig. Hann tók þá til fótanna og hljóp héðan út með slökkvitækið með sér,“ segir Kristján Helgi sem var við afgreiðslustörf ásamt yfirmanni sínum þegar tilraunin til ráns átti sér stað.
Spurður hvernig það hafi komið til að hann hafði öxi tiltæka á vinnustaðnum segir hann öxina hafa fundist í nágrenninu nýlega og starfsmenn tölvuleikjamiðstöðvarinnar hirt hana. „Ég greip í raun bara það sem hendi var næst, í þetta skiptið kom sér ágætlega að hafa öxi á staðnum,“ segir hann.
Virtist vera í vímu
Aðspurður segir Kristján Helgi ræningjann ekki hafa verið mjög ógnandi. „Þetta var ekki sérlega stór náungi og þarna var ég kominn með öflugra vopn en hann svo þetta var ekki beint tvísýnt,“ segir Kristján Helgi og bætir við að sér hafi virst ræninginn undir áhrifum efna. Kristján var nokkuð rólegur yfir atburðum dagsins og sagðist ekki vera í merkjanlegu áfalli.
Maðurinn sem var að verki er um tvítugt, íklæddur hettupeysu og íþróttabuxum. Lögregla telur sig vita um hvern ræðir, en sá er góðkunningi lögreglu.
Tengd frétt: Ógnaði starfsmanni með slökkvitæki.