Ofsaveður sem geisað hefur á Vestfjörðum er að ganga niður, en hvasst til fjalla. Mikil ofankoma og fannburður í skafrenningi hefur verið samfara veðrinu á norðanverðum fjörðunum en úrkoma hefur verið minni á sunnanverðum fjörðunum. Ferðalangar þurfa að hafa varann á þegar farið er um svæði þar sem snjóflóð geta fallið, samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum.
Þó að versta veðrið sé nú afstaðið, gengur norðanáttin mjög hægt niður. Búist er við hvassviðri eða stormi fram eftir degi og strekkingur eða allhvass vindur á morgun. Áfram verða snjókoma eða él á N-verðu landinu.
Norðan 13-23 m/s, en 10-20 síðdegis. Norðan 10-18 á morgun. Snjókoma eða él N-til á landinu, en skýjað með köflum S-lands. Fer að lægja vestast seint á morgun og styttir upp. Frost 0 til 6 stig.
Áfram rafmagnstruflanir
Rafmagn er komið á á Ísafirði. Búast má við rafmangstruflunum framan af degi.
Rafmagn er framleitt með varavélum fyrir Ólafsvík, Hellissand og Rif, og notendur vinsamlega beðnir að fara sparlega með rafmagn af þeim sökum. Um kl. 03.44 í nótt tókst að koma á rafmagni frá Bláfeldi að Húsanesi í Breiðuvík, en veðurhæð var mjög mikil í nótt og því eiginlega ekkert verður til vinnu.
Staðarsveitarlína er enn biluð við Litla-Kamb, og verður gert við línuna um leið og vind lægir nægilega mikið til þess að hægt sé að athafna sig.
Raforkunotendur í Saurbæ og á Fellsströnd eru enn án rafmagns, en verið er að flytja efni til viðgerða. Ekki verður hægt að skoða ástand dreifilína fyrr enn að lægir og birtir, en vitað er um a.m.k, sjö brotna staura á Saurbæjar-, og Fellsstrandarlínu.
Víða ekkert gsm-samband
Víða er ekkert GSM-samband vegna rafmangsleysis á farsímasendum. Landlínan er öruggust og er fólki ráðlagt að verða sér út um snúrusíma sem kalla ekki á hleðslu með rafhlöðum.
Almannavarnadeild vekur athygli á því að þótt mesti veðurhamurinn sé genginn yfir er enn vont veður á Vestur- og Norðurlandi. Ekki má búast við að veðrið gangi niður fyrr en upp úr hádegi á morgun. Víða er mokstur hafinn, en lítið þarf til þess að færð spillist á ný. Fólki er ráðlagt vera ekki á ferð nema brýna nauðsyn beri til.