Vegna snjóflóðahættu eru enn nokkrar leiðir á Vestfjörðum og á Norðurlandi lokaðar. Hálkublettir og óveður er á Kjalarnesi samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.
Lítil ofankoma, en talsverður skafrenningur og kóf á Vestfjörðum og vestantil á Norðurlandi í dag. Vindur hefur þó minnkað nokkuð frá í gær, einkum vestast á landinu. Frá Eyjafirði og austur á Vopnafjörð er hins vegar útlit fyrir éljagang eða hríð í allan dag með hvassviðri og jafnvel stormi af NV. Veður fer þar versnandi í kvöld frekar en hitt. Á Kjalarnesi má reikna með vindhviðum 30-35 m/s fram á miðjan daginn, samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar.
Vegna snjóflóðahættu er lokað á Vestfjörðum um Súðavíkurhlíð, Eyrarhlíð, Botnsdal, Breiðadal og Flateyrarveg en á Norðurlandi bæði um Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla.
Hálka er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Hálkublettir eru á Suðurstrandarvegi og víðar á Suðurlandi en snjóþekja er á Mosfellsheiði.
Á Snæfellsnesi er Fróðárheiði ófær en annars er hálka mjög víða á nesinu. Á Holtavörðuheiði er hálka og skarenningur en ófært er á Bröttubrekku og unnið er að mokstri.
Allir vegir eru meira eða minna lokaðir á Vestfjörðum og Norðvesturlandi
Á Vestfjörðum eru vegir enn meira eða minna lokaðir og ófærir.
Hálka er í Húnavatnssýslum og éljagangur. Ófært er frá Hofsósi út í Fljót en síðan er Siglufjarðarvegur lokaður utan Fljóta vegna snjóflóðahættu, og Ólafsfjarðarmúli sömuleiðis. Ófært er svo á Vatnsskarði, í Héðinsfirði, milli Dalvíkur og Akureyrar og á Öxnadalsheiði. Um Norðausturland eru flestir vegir ófærir.
Á Austurlandi er ófært á Vopnafjarðarheiði, Möðrudalsöræfum og í Jökuldal.
Þæfingur og skafrenningur er á Fjarðarheiði og í Fagradal en hálka og skafrenningur á Oddsskarði.
Annars er víða hálka eða snjóþekja og sumstaðar éljagangur en aftur á móti eru vegir auðir á Suðausturlandi.