Þakklæti efst í huga Jóhönnu

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þakklæti var Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, efst í hugsa í árlegu áramótaávarpi fyrr í kvöld, og vísaði til þeirra fjölmörgu sem lagt hefðu mikið af mörkum og hönd á plóg við endurreisn íslenskt samfélags, sem hún sagði hafa staðið yfir allt þetta kjörtímabil og reynst mörgum sár og erfið.

„Þjóðin hefur á þessum tíma sýnt styrk sinn og elju og hefur vaxið við hverja raun og ekki fallist hendur, þó á brattan hafi verið að sækja og um grýttan veg að fara,“ sagði Jóhanna.

Hún sagði að nú þegar mestu efnahagserfiðleikarnir væru að baki væri hægt að líta með sæmilegri sátt um öxl og horft nokkuð bjartsýn fram á veginn.

Á margan hátt ríkari nú en fyrir hrun

„Við erum á margan hátt ríkari nú en fyrir hrun, því margir hafa nýtt þennan umbrotatíma til að endurmeta hin samfélagslegu gildi og hvað það er sem skiptir máli í lífinu,“ sagði Jóhanna.

Hún sagði að árangur erfiðisins á síðustu fjórum árum megi meðal annars sjá í að gildi jöfnuðar, mannúðar og samfélagslegrar ábyrgðar vegi þyngra nú en áður. „Krafan um traust, heiðarlegt og siðað samfélag, þar sem meira fjárhagslegt jafnræði og félagslegt réttlæti ríkir hefur fengið aukinn þunga,“ sagði Jóhanna.

Hún ræddi um átök í samfélaginu og um ástandið á vinnumarkaði: „Staðreyndin er sú að allt frá hruni hefur ríkt nánast fullkominn friður á vinnumarkaði, sömu flokkar hafa stjórnað landinu án pólitískra kollsteypa og óeirðir eða uppþot hafa engin orðið að því er heitið getur, eftir að núverandi ríkisstjórn tók við.

Mætt áföllum vegna hrunsins af æðruleysi

Umræður hafa verið harkalegar, óvægnar og stormasamar á köflum, en það sýnir ótrúlegan styrk og yfirvegun þjóðarinnar, að við höfum þrátt fyrir allt mætt þeim áföllum sem rekja má til hrunsins af æðruleysi.

Sannarlega hafa þó margir liðið vegna hrunsins og óánægjan verið mikil, en þau miklu og eðlilegu hagsmunaátök sem átt hafa sér stað hafa góðu heilli að mestu fundið sér farveg í samfélagslegri og pólitískri umræðu,“ sagði Jóhanna.

Segir lífskjarasókn hér kröftugri en í flestum löndum

Hún ræddi aftur árangurinn á kjörtímabilinu gagnvart heimilum og fyrirtækjum og sagði svo: „Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, OECD, Evrópusambandið og fjölmargir erlendir greiningaraðilar hafa lokið lofsorði á árangur uppbyggingarstarfsins og hægt og bítandi er Ísland að ávinna sér traust á alþjóðamörkuðum á nýjan leik.

Lífskjarasóknin hér á landi er einnig kröftugri en í flestum löndum sem við helst berum okkur saman við.

Hagvöxtur hefur á liðnum tveimur árum verið einna mestur hér á landi meðal þróaðra OECD-ríkja.“

Jóhanna sagði atvinnuleysi minna hér en víðast annars staðar og að atvinnuþátttaka hér væri með því mesta sem gerðist í heiminum. Þá sagði hún skatta sem hlutfall af landsframleiðslu lægsta hér á landi af öllum Norðurlöndunum.

Jóhanna nefndi þrautseigju, æðruleysi og vinnusemi þjóðarinnar sem þátt í því að þjóðin væri að vinna sig út úr erfiðleikunum og bætti við: „Við höfum alla burði til að verða í fremstu röð þjóða heims hvað lífskjör, umhverfisgæði og mannréttindi varðar.

Það veltur mest á okkur sjálfum hvernig til tekst. En við verðum að vita hvert við viljum stefna – hvernig samfélag við viljum byggja upp á okkar gjöfula landi.“

Tillögur Stjórnlagaráðs nú í höndum Alþingis

Jóhanna ræddi einnig ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur Stjórnlagaráðs í haust og að málið væri nú í höndum Alþingis. Hún sagði framundan tíma mikilvægra ákvarðana á vinnumarkaði og að endurskoðunarákvæði kjarasamninga væru opin nú í janúar.

Að lokum sagði forsætisráðherra: „Það er von mín og trú að við munum á næstu árum halda áfram að byggja hér upp samfélag samhjálpar og jöfnuðar, -samfélag þar sem allir hafa tækifæri en ekki bara sumir, -samfélag sem byggir upp þjónustu við þá sem minna mega sín.

Það eru forréttindi að búa við menntakerfi og heilbrigðiskerfi sem er aðgengilegt öllum.

Það eru forréttindi að tilheyra þjóð, sem ber virðingu fyrir mannréttindum og virðir ólík viðhorf mismunandi hópa samfélagsins.

Það eru forréttindi að tilheyra þjóð sem er fremst í heiminum þegar kemur að jafnrétti kynjanna.

Slíkri þjóð eru allir vegir færir.

Ég óska ykkur farsældar á nýju ári og þakka fyrir samfylgd á krefjandi tímum.“

Ræða forsætisráðherra í heild

Jóhanna við flutning ávarps síns í kvöld.
Jóhanna við flutning ávarps síns í kvöld. Skjáskot frá RÚV
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert