„Útvegsmenn og sjómenn stóðu sem einn maður á Austurvelli til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar af illa ígrunduðum tillögum um margföldun veiðigjaldsins. Fyrir þann stuðning ber að þakka. Því miður voru lögin samþykkt og eru varnaðarorð þeirra sem mótmæltu nú að rætast.“
Þetta segir meðal annars á heimasíðu Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) vegna yfirlýsingar sjómannafélaganna Jötuns og VM í Vestmannaeyjum og sjómannadeildar Framsýnar nýverið þar sem því var mótmælt að hlutaskiptakerfi sjómanna og útvegsmanna verði endurskoðað í ljósi margföldunar veiðigjalda og það sagt óásættanlegt að sjómenn hafi verið samningslausir í tvö ár.
„Þrátt fyrir að kjarasamningar útvegsmanna og sjómanna hafi verið lausir síðastliðin tvö ár hafa kauptrygging og kaupliðir sjómanna hækkað tvisvar, um 4,25% þann 1. júní 2011 og um 3,5% þann 1. febrúar 2012. Laun sjómanna ráðast fyrst og fremst af verðmæti afla. Þegar vel árar, eins og síðustu ár, hafa sjómenn og útvegsmenn haft góðar tekjur,“ segir ennfremur á heimasíðu LÍÚ.
Hins vegar hafi veiðigjöld verið margfölduð með lögum síðasta sumar og grundvelli hlutaskiptakerfisins þar með kollvarpað af hálfu stjórnvalda. Ljóst sé að ekki sé hægt að ætlast til þess að útgerðarfyrirtæki greiði laun af þeim hluta sem ríkið taki til sín. Útvegsmenn hafi vísað kjaraviðræðum við sjómenn til ríkissáttasemjara í þeim tilgangi að ná samningum en sú viðleitni hafi hins vegar enn ekki borið árangur og mikið beri í milli.
„Á fundi sjómanna og útvegsmanna á Austurvelli var ákvörðun stjórnvalda um afnám sjómannaafsláttarins mótmælt harðlega. Útvegsmenn hafa alltaf stutt þá kröfu sjómanna,“ segir að lokum.