„Þetta er bara tóm vitleysa,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur spurður út í umfjöllun New York Times um tvo heimildarþætti, sem sýndir voru á PBS sjónvarpsstöðinni í gær, þar sem fjallað er um íslensk eldfjöll. Þar kom fram að Ísland væri í raun eins og tifandi tímasprengja sem gæti sprungið í loft upp hvenær sem er.
„Það er engin tifandi tímasprengja hér. Þetta er ódýrasta sort af hasarblaðamennsku,“ segir Páll ennfremur í samtali við mbl.is.
„Við megum passa okkur á að vera ekki að éta upp vitleysuna eftir útlendingum sem lítið þekkja til,“ segir Páll. Margir útlendingar frétti aðeins af eldgosum þegar um einhverjar stórhamfarir sé um að ræða. „Þess vegna halda þeir að öll eldgos séu stórhamfarir. En þetta vitum við betur.“
Þá segir Páll að Íslendingar búi í eldfjallalandi og það sé ekkert hræðilegt við það. Hér verði eldgos á um það bil tveggja til þriggja ára fresti að meðaltali. „Flest þeirra eru lítil og sauðmeinlaus og ekki neitt að óttast með það,“ segir Páll og bætir við að menn viti ekki um neinar tifandi tímasprengjur hér.
Páll segir að íslenskir starfsbræður sínir hafi tekið þátt í gerð annars þáttarins „Félögum mínum brá dálítið illilega í brún þegar þeir sáu titilinn á þættinum sem þeir tóku þátt í. Þeir hefðu aldrei tekið þátt í þessu hefðu þeir vitað hver titilinn átti að verða,“ segir Páll, en um er að ræða þátt sem heitir Nova - Doomsday Volcanoes. „Það er alveg skelfileg blaðamennska að setja svoleiðis titil á svona þátt. Það gerir engum gagn.“
Menn verði einfaldlega að passa sig á því að svona lagað komi ekki í bakið á mönnum, þ.e. að menn fari að vantreysta því sem íslenskir vísindamenn segi. „Menn eru nú ennþá svolítið í því að trúa því kannski betur sem útlendingar segja heldur en því sem Íslendingar segja.“
Aðspurður segir Páll að alltaf sé fylgst vel og skilmerkilega með íslenskum eldstöðvum. Hvað þær varði þá sé ekkert nýtt að frétta en sömu svæði séu þó ávallt undir smásjánni frekar en önnur. „Hekla er að þenjast út og er búin gera það síðan 2000. Það stefnir nú í gos, en hvenær það verður veit enginn,“ segir Páll.
Þá segir hann að Katla sé enn jafn óróleg og hún hafi verið undanfarna fjóra áratugi. „Hún byltir sér stöðugt. Hún er stórhættulegt eldfjall og það höfum við alltaf vitað,“ segir hann.
Þá er fylgst grannt með hreyfingum í námunda við Öskju og í Krýsuvík. „Það er ekkert nýtt beinlínis síðan á síðasta ári með þetta.“
Aðspurður segir Páll áhugi erlendra vísindamanna á að stunda rannsóknir á íslenskum eldfjöllum hafi aukist mikið í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli árið 2010. „Það hristi mjög upp í fólki og bendir á að það geta hlutir gerst þó að þeir séu ekkert sérstaklega líklegar, þá geta þeir samt gerst.“
Ástæðan fyrir áhuganum tengist helst þeirri röskum sem varð á flugsamgöngum vegna gossins. Páll bendir á að gosi í Eyjafjallajökli hafi ekki verið stórt. „En það var samsafn af aðstæðum sem ollu því að það raskaði meira heldur en það hefði átt að gera. Það var margt sem spilaði saman. Síðan kom miklu stærra gos ári seinna í Grímsvötnum - svona rétt til að sýna okkur að ekki þurfa öll gos að vera hættuleg. Þótt að það ylli vissulega tjóni austur í Skaftafellssýslum þá olli það ekki neinum truflunum á flugsamgöngum eða neinu slíku,“ segir Páll og bætir við að það sé ágætt að benda útlendingum á að það sé ekki einvörðungu stærð eldgosa sem ráða því hversu mikil áhrifin verða.
Páll segist ekki hafa orðið var við að skiliningur manna á aðstæðum hér á landi hafi aukist en áhuginn sé vissulega til staðar. Það sé breyting frá því sam var. „Mjög jákvæð þróun í raun og veru sem kom út úr þessu Eyjafjallajökulsgosi. Menn áttuðu sig á því að það var þarna ýmislegt sem var hægt að rannsaka til að finna út og minnka þessi áhrif af gosunum,“ segir Páll.
Hvað varðar heimildarþættina og frétt New York Times, segir Páll að það sé ekki gott ef fjölmiðlar séu að dreifa ranghugmyndum til fólks. „Leiðin til að lifa með svona hættum er í fysta lagi að rannsaka þetta og efla almenna þekkingu á því. Og þessi frétt gerir það sennilega ekki.“
Páll vill láta það liggja á milli hluta hvort umfjöllun þáttanna og New York Times sé góð landkynning eður ei. Hann bendir á að gosið í Eyjafjallajökli hafi verið gríðarleg landkynning og fólk bæði viti meira og hafi meira áhuga á landi og þjóð. „Þessi aukning á ferðamannastraumi hingað hún er fyrst og fremst vegna eldgossins,“ segir Páll.
Hann segir að víða annars staðar í heiminum sé að finna mun hættulegri eldfjallasvæði. „Það eru nú staðir þar sem ég myndi ekki vilja vera eldfjallafræðingur, satt að segja. Vegna þess hve hættan er gjörsamlega óviðráðanleg. Eins og t.d. í Napolí,“ segir Páll að lokum.