„Málið snýst ekki um að greiða kröfuhöfunum á löngum tíma. Málið snýst um að það er ekki raunveruleg gjaldeyrisinnstæða fyrir þeim. Það er ekki réttlátt né skynsamlegt að almenningur sitji uppi með þessar byrðar.“
Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um þau ummæli Gylfa Magnússonar, dósents í viðskiptafræði og fyrrverandi viðskiptaráðherra, í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að ekkert sér því til fyrirstöðu að ganga frá nauðasamningum við kröfuhafa vegna gömlu bankanna á endanum og að það leysi engan vanda að bíða með það.
Guðlaugur segir á Facebook-síðu sinni í kvöld að fullyrt hafi verið við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að ekki stæði til að samþykkja nauðasamningana strax. Hann segir ennfremur að það verði auðveldara fyrir kröfuhafa bankanna, sem einkum eru erlendir vogunarsjóðir, að öllu óbreyttu að fara framhjá gjaldeyrishöftunum þegar þeir verða orðnir eigendur að bönkunum.