Ekki verður komist hjá því að endurmeta stöðu umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið i ljósi breyttra forsenda segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í nýárskveðju til félaga í VG á heimasíðu flokksins.
„Óumflýjanlegt er að endurmeta nú stöðu viðræðna við Evrópusambandið í ljósi breyttra forsendna og búa um það mál með ábyrgum hætti. Þar verður vilji þjóðarinnar sjálfrar að varða veginn úr því ljóst er orðið að ekki reyndist unnt að leggja málið í hennar dóm á kjörtímabilinu í formi atkvæðagreiðslu um samning eða efnislega niðurstöðu eins og til stóð,“ segir Steingrímur.
Þá segir hann að verkefni næstu vikna verði að ákveða með hvaða hætti búið verði um málið „til næstu mánaða og missera og hvenær og hvernig verður leitað leiðsagnar frá þjóðinni í þeim efnum“.
Nýárskveðja Steingríms J. Sigfússonar