Úrkomumet sett í Reykjavík

Meðalhiti í Reykjavík var 1,2 stig og er það 1,4 …
Meðalhiti í Reykjavík var 1,2 stig og er það 1,4 stigum ofan meðallags. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Úrkoma í Reykjavík mældist alls 112,4 mm í desember sem er 43 prósent umfram meðallag. Nýtt dægurmet úrkomu var sett í Reykjavík þegar sólarhringsúrkoman kl. 9 að morgni þann 29. mældist 70,4 mm. Það er miklu meira en eldra úrkomumet, en það var 56,7 mm frá 5. mars 1931.

Á vefsvæði Veðurstofu Íslands er farið yfir veðrið í desember. Þar segir að hlýtt hafi verið um meginhluta landsins og hiti vel ofan meðallags í flestum landshlutum en þó aðeins í rétt rúmu meðallagi inn til landsins á Austurlandi.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 21,9 sem er 9,7 stundum yfir meðallagi. Ekkert sólskin mældist á Akureyri í mánuðinum, en það er mjög algengt þar í desember.

Meðalhiti í Reykjavík var 1,2 stig og er það 1,4 stigum ofan meðallags. Á Akureyri mældist meðalhiti -1,3 stig og er það 0,6 stigum ofan meðallags.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 11,2 stig á Keflavíkurflugvelli þann 20. Veðurstofan segir reyndar að það sé grunsamleg tala, þar sem að á sjálfvirku stöðinni hafi hiti aðeins farið í 8,2 stig á sama tíma.

Á sjálfvirkum stöðvum mældist hiti hæstur 10,8 stig en það var á Siglufirði og Lambavatni þann 20. Lægstur mældist hitinn í Svartárkoti þann 25., -24,6 stig. Lægstur hiti á mannaðri stöð mældist -20,0 stig. Það var á Grímsstöðum á Fjöllum þann 19. desember.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert