Búist við vatnselg

Hálka hefur verið undanfarið á mörgum vegum landsins, búist er …
Hálka hefur verið undanfarið á mörgum vegum landsins, búist er við leysingum norðan til og að mikill vatnselgur verði víða. mbl.is/Golli

Í dag er spáð suðlægum áttum og rigningu um allt sunnan- og vestanvert landið. Viðbúið er að miklar leysingar verði norðan til á landinu og að víða verði talsverður vatnselgur á vegum.

Síðdegis hvessir úr suðri og má gera ráð fyrir sunnan 13-20 m/s um landið sunnan- og vestanvert. Gera má ráð fyrir hvössum vindhviðum undir Hafnarfjalli í dag og fram á kvöld, og einnig má búast við stormi og hvössum vindhviðum, allt að 35 m/s, á norðanverðu Snæfellsnesi.

Á norðanverðu landinu er víða hálka og geta aðstæður hæglega versnað með leysingavatni sem rennur yfir klaka eða þjappaðan snjó á vegum.

Hálkublettir eru á Mosfellsheiði og fáeinum sveitavegum á Suðurlandi. Þoka er á Hellisheiði.

Á Vesturlandi eru sumstaðar hálkublettir á fjallvegum en víða er autt á láglendi. Hálka er þó á Laxárdalsheiði. Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir á flestum vegum en varað er við flughálku yfir Klettsháls og á fáeinum sveitavegum.

Vegir eru að mestu auðir í Húnavatnssýslum en hálka er á Vatnsskarði og víða á Norðurlandi eystra. Flughált er á Reykjaströnd, í Svarfaðardal og í Öxarfirði.

Flughált er í Bakkafirði, á Sandvíkurheiði og í Vopnafirði, og eins á Möðrudalsöræfum, Jökuldal og flestum vegum á Héraði. Fjarðarheiðin er einnig flughál. Hálka eða hálkublettir eru hins vegar frá Egilsstöðum og með ströndinni vestur í Öræfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert