„Maður er farinn að finna grútarlykt úr fjörunni,“ segir Arnór Páll Kristjánsson, bóndi á Eiði við Kolgrafafjörð á Snæfellsnesi, en mikið af síld hefur rekið á fjörur við bæinn.
Gríðarlegt magn af dauðri síld rak á land í Kolgrafafirði í desember. Hafrannsóknastofnun birti í desember bráðabirgðaskýrslu þar sem segir að súrefnismettun í firðinum hafi mældist mjög lág, lægri en áður hefur mælst í sjó við landið. Stofnunin telur líklegt að þessi lækkun á styrk súrefnis stafi meðal annars af öndun síldar sem var í miklu magni innan brúar dagana áður en mælingarnar voru gerðar.
Arnór segir að í austan og suðaustanátt berist grútarlykt yfir að bænum. Mikið fuglager sé yfir dauðri síld í fjörunni. Hann segir að í hafrótinu sem fylgdi óveðrinu milli jóla og nýárs hafi dauð síld sem liggur á botninum rótast upp. Það sé mikil síld í fjörunni, en hún grafist inn í þarann og mölina í fjörunni.
„Það vill til að þetta gerist snemma á vetri og ég vonast því til að þetta hafi jafnað sig í vor þegar fer að hlýna,“ segir Arnór.
Frostlaust hefur verið við landið síðustu tvo daga og búast má við að grútarlykt aukist eitthvað við það.
Arnór segir að það sé enn talsvert af lifandi síld í firðinum. „Ég tel að það hafi verið mikið meira af síld í firðinum en þessir sérfræðingar segja. Ég held að það hafi verið svo mikið af síld í firðinum að hún hafi ekki komist fyrir í honum. Það var hreinlega svo mikið af henni að lifandi síld spriklaði ofan á torfunum. Þegar var mikið útfall þá fjaraði undan henni. Maður gat séð lifandi síld spriklandi í pollum á eyrunum,“ segir Arnór.
Arnór segir að Kolgrafarfjörðurinn sé uppeldisstöð fyrir smásíld. Það sem drapst í desember hafi hins vegar verið fullvaxin síld. Hann segist hafa lesið um að frostaveturinn 1918 hafi talsvert drepist af síld í firðinum. Þetta sé því líklega ekki einsdæmi.