Leigjendurnir lögðu íbúðina í rúst

„Ég var búinn að fá kvartanir frá nágrönnum um slæma lykt frá íbúðinni, en mig óraði aldrei fyrir því að þetta liti svona út,“ segir Skarphéðinn Haraldsson, sem leigði út íbúð sína í Þorlákshöfn. Megnan óþef af hundaskít og -þvagi lagði frá íbúðinni, sem nú er óíbúðarhæf. Hann hyggst kæra leigjendurna.

Skarphéðinn auglýsti íbúðina til leigu í haust. Hann starfar í álverinu í Reyðarfirði og er búsettur þar í bæ og hafði ekki tök á að hafa eftirlit með íbúðinni. Hann leigði þremur ungmennum um tvítugt íbúðina og segir þau hafa komið vel fyrir. Þau voru með tvo hunda og fengu leyfi Skarphéðins til að hafa þá í íbúðinni svo framarlega sem aðrir íbúar í húsinu samþykktu það.

Trúði vart eigin augum

Leigjendurnir höfðu stungið af úr íbúðinni er Skarphéðinn kom þangað 22. desember. Hann trúði vart eigin augum er hann gekk þangað inn. „Gólfið var þakið hundaskít, sem hafði, ásamt þvagi hundanna, lekið í teppi sem var undir parketinu. Þarna var líka eitthvað sem ég held að séu hlutar af tækjum til hassneyslu og rusl út um allt. Veggirnir, hurðir og gólfefni; þetta er allt stórskemmt og ég er búinn að hreinsa þetta út úr íbúðinni. Lyktin var svo sterk og mikil að ég varð að fjarlægja þetta strax.“

Hann segir að nokkrum sinnum hafi verið haft samband við lögreglu vegna ástandsins, bæði hann og nágrannar hafi gert það, en lítið hafi verið að gert. Þá hafði hundaeftirlitsmanni verið gert viðvart vegna aðbúnaðar dýranna.

Þetta verður kært

„Nú mun ég skoða hvað ég geri í málinu, en það er alveg á hreinu að þetta verður kært. Ég geri ekki ráð fyrir að fá neitt út úr þessu, ætli ég sitji ekki uppi með tjónið sjálfur. Íbúðin er óíbúðarhæf. “

Skarphéðinn segir það vera áfall að fólk geti umgengist eigur annarra á þennan hátt. „Ég skil ekki hvernig hægt er að sýna öðru fólki og sjálfum sér svona lítilsvirðingu og koma svona fram við dýr. Þetta hlýtur að vera dýraverndunarmál. En þau komu vel fyrir, annars hefði ég aldrei treyst þeim fyrir íbúðinni minni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert