„Meira að marka núna en áður?“

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, ´samt fleiri þingmönnum.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, ´samt fleiri þingmönnum. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Er eitthvað meira að marka ummæli hans núna en fyrir síðustu kosningar?“ spyr Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, spurður um viðbrögð við þeim ummælum Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í nýárskveðju til flokksmanna sinna að óumflýjanlegt sé að endurmeta stöðuna í viðræðunum við Evrópusambandið í ljósi breyttra forsendna.

Steingrímur vísar þar til þess að ekki hafi reynst mögulegt að leggja endanlegan samning eða efnislega niðurstöðu um inngöngu í Evrópusambandið fyrir þjóðina á kjörtímabilinu eins og stefnt hafi verið að. Það verði því verkefni næstu vikna að ákveða með hvaða hætti verði búið um málið „til næstu mánaða og missera og hvenær og hvernig verður leitað leiðsagnar frá þjóðinni í þeim efnum“.

Gunnar Bragi segir að það sé vissulega rétt að forsendur hafi breyst vegna Evrópusambandsmálsins til að mynda vegna makríldeilunnar, Icesave-málsins og efnahagsástandsins innan sambandsins. Af nógu sé að taka en það sé hins vegar ekkert nýtt. Það sé heldur alls ekkert nýtt að ekki yrði mögulegt að ljúka viðræðunum við Evrópusambandið á kjörtímabilinu.

„Maður vonar auðvitað að það sé eitthvað á bak við þetta hjá Steingrími. En það eru auðvitað kosningar framundan og flokksstjórnarfundur og landsfundur hjá vinstri-grænum og ég hef einfaldlega enga trú á því að það sé nokkur raunveruleg innistæða fyrir þessu hjá honum frekar en fyrri daginn,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert