Farþegar héldu flugdólginum niðri

Binda þurfti manninn niður af öryggisástæðum. Myndina tók farþegi í …
Binda þurfti manninn niður af öryggisástæðum. Myndina tók farþegi í vélinni. Ljósmynd/Reddit

Bandaríska stórblaðið The New York Post greinir ítarlega frá atvikinu, sem varð um borð í flugvél Icelandair á leið til New York í fyrradag þegar ölvaður íslenskur karlmaður gekk berserksgang og óla þurfti hann niður. Þar segir að farþegar hafi þurft að halda manninum niðri.

Í frétt sem birtist í dag á vefsíðu blaðsins er maðurinn nafngreindur og þar segir að eftir að hann hafði drukkið úr heilli flösku af sterku áfengi hafi flugliðar tekið af honum tvær flöskur til viðbótar sem hann var með í fórum sínum. Þá seildist hann í sætisvasann fyrir framan sig, þar sem hann hafði vænar birgðir af litlum áfengisflöskum, og hóf að neyta innihalds þeirra sem var, samkvæmt heimildamanni The New York Post, sterkt áfengi.

Ölvaður einstaklingur í bardagahug

Þegar um tvær klukkustundir voru til lendingar sýndi maðurinn skyndilega mikil merki ölvunar, að sögn lögreglu og sýndi farþegum ofbeldistilburði. Tvær konur, sem sátu í námunda við hann, voru óöruggar í návist hans og buðust tveir karlmenn frá Gvatemala til að skipta um sæti við þær, sem þær þáðu. 

Um svipað leyti varð maðurinn mjög æstur, hann tók um háls farþega, reyndi að kyrkja konu sem sat við hlið hans og öskraði að vélin væri að hrapa. „Ímyndið ykkur ölvaðan einstakling sem er í bardagahug,“ sagði talsmaður lögreglu í samtali við blaðið og bætti við að maðurinn hefði virst viti sínu fjær.

Þegar hér var komið sögu brugðu karlmennirnir tveir frá Gvatemala á það ráð að halda manninum niðri, flugstjóri sem var farþegi um borð í vélinni kom þeim til aðstoðar og áhöfn kom síðan að og festi hendur og fætur mannsins með límbandi og plastböndum. Einnig var límt fyrir munn hans.

Engin eftirmál

Lögregla tók á móti manninum við komuna á JFK-flugvöll í New York. Þegar lögregla hugðist færa hann út úr flugvélinni varð hann hræddur og hélt að snákur væri í buxnaskálm hans. Farið var með manninn á sjúkrahús og verða engin eftirmál af atvikinu af hálfu bandarískra yfirvalda, en farþegar vildu ekki bera vitni um hegðun hans, samkvæmt frétt The New York Post.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert