„Það er í meira lagi furðulegt af fyrrverandi forsætisráðherra landsins að stilla sér upp í liði þeirra sem vilja rýra völd Alþingis,“ skrifar Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs á bloggsíðu sinni í dag um pistil Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, í Fréttablaðinu í dag.
„Það er í meira lagi furðulegt af fyrrverandi forsætisráðherra landsins að stilla sér upp í liði þeirra sem vilja rýra völd Alþingis og þar með þingræðið í landinu og breytir þar engu úr hvaða flokki hann kemur. Afstaða Þorsteins Pálssonar í þessu máli hlýtur því fyrst og fremst að mótast af óbeit hans á núverandi stjórnvöldum og löngun til að koma Flokknum aftur til valda, umfram annað,“ skrifar Björn Valur.
Hann skrifar að Ólafur Ragnar Grímsson láti sig ekki varða hvaða flokkar séu við völd hverju sinni. „Hans draumar snúast um að auka sín eigin völd á kostnað Alþingis, ef ekki með góðu – þá með illindum. Í því nýtur forsetabjáninn stuðnings og aðdáunnar sjálfstæðisflokksins [sic] eins og svo oft áður.“
Í pistil sínum í Fréttablaðinu fjallar Þorsteinn um að forseti Íslands hafi tekið upp mál að eigin frumkvæði á ríkisráðsfundi og segir hann hafa verið í fullum rétti til þess. Greinin ber fyrirsögnina „Hvöss en hófsöm hirting“ og þar skrifar Þorsteinn:
„Við venjulegar aðstæður er það ekki hlutverk þjóðhöfðingjans að blanda sér í viðfangsefni Alþingis á þennan veg. Alla jafna væri það tilefni harðrar gagnrýni. Segja má að stjórnarskrárendurskoðun sé helsta málefnið sem réttlætt getur slíkt inngrip af hans hálfu og þó því aðeins að í mikið óefni stefni. Að öllu virtu verður að fallast á það stöðumat með forsetanum að rétt hafi verið að taka í taumana í ljósi þess hvernig forsætisráðherra og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hafa haldið á málinu eftir að stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum fyrir einu og hálfu ári. Jafnvel má líta svo á að forsetanum hafi verið þetta skylt eins og málið er vaxið.“