Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, er genginn til liðs við stjórnmálaflokkinn Dögun. Þetta kemur fram í viðtali við fréttavef Bæjarins Bestu á Ísafirði, en þar segist hann hafa komið inn í flokkinn þegar vinna við efnahagsmálastefnu flokksins væri í gangi og að sér litist vel á þau stefnumál sem þegar væru mótuð.
„Ég ákvað að ganga þarna inn á þessum tímapunkti til að koma að því að móta það því framboð sem ætlar að ná árangri verður að hafa raunhæfa áætlun í efnahagsmálum,“ segir Kristinn við bb.is í dag.
Það kemur einnig fram að Kristinn hafi ekki gert upp við sig hvort hann fari í framboð fyrir Dögun í vor, en ef af því verði muni hann vilja leiða lista flokksins í NV-kjördæmi.
Það yrði þá fjórði flokkurinn sem Kristinn færi í framboð fyrir og sjöunda skiptið sem hann byði sig fram. Hann sat á Alþingi fyrst fyrir Alþýðubandalagið, þá fyrir Framsóknarflokkinn og svo fyrir Frjálslynda flokkinn.
„Við höfum lengi búið við vont kerfi sem hefur dregið þróttinn úr áður blómlegum byggðum sem geta orðið það aftur ef löggjöfin verður eðlileg. Ég vill sjá það gerast. Það þarf að laga þetta þannig að staðirnir næst miðunum hagnast á því og blómstri. Það myndu Vestfirðir gera ef löggjöfin væri þannig,“ segir Kristinn og er ekki hrifinn af sjávarútvegsstefnu stjórnarinnar í dag.
Þó finnst honum eðlilegt að innheimta gjald fyrir veiðarnar og útgerðamenn hafi ákveðið veiðigjald fyrir mörgum árum. „Aðferðirnar í að reikna út veiðigjaldið eru samt mjög umdeilanlegar og umdeildar. Átökin í þessu máli eru hörð því þetta eru svo miklir peningar. Venjulegir borgarar geta auðgast mjög mikið ef þeir hafa öðlast kvóta á réttum tíma og geta þá selt hann og sest í helgan stein,“ segir Kristinn.
Viðtalið í heild sinni má lesa hér.