„Hún var aðeins í nótt hérna vestar. Við erum að keyra austur fyrir að leita. Skipin eru öll að leita og enginn veitt neitt, svo ég viti til,“ segir Gunnar Björn Tryggvason, stýrimaður á Lundey NS-14 sem er fyrir norðan land í samfloti með öðrum loðnuskipum í leit að loðnu til veiða.
Fjöldi loðnuskipa er nú norðan við landið, út af Melrakkasléttu, í leit að loðnu. Mbl.is hafði samband við tvö skip þar sem þær fregnir fengust að beðið væri eftir að loðnan fyndist fyrir austan svokallaða toglínu.
„Hún er ekki komin á togsvæðið. Að minnsta kosti hefur ekki fundist neitt þarna austar þar sem það má vera með trollin,“ sagði Gunnar Björn og bætti við: „Skipin eru öll hérna norður af Langanesinu að leita.“