Gríðarmikill straumur af köldu neysluvatni hefur fundist við borun hitastigulsholu hjá Goðalandi í Fljótshlíð. Jarðbor frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða var búinn að bora niður á um 120 metra.
Ætlunin er að fara niður á 150-200 metra dýpi, að sögn Hauks Jóhannessonar jarðfræðings og umsjónarmanns verkefnisins. Þegar þangað er náð á að meta stöðuna varðandi framhaldið. Ef vart verður hitabreytingar kann að verða borað niður á 250 metra, eða eins og borinn nær.
„Þetta kom mér ekkert á óvart, við höfum lent í þessu innar í Fljótshlíðinni,“ sagði Haukur.