„Þetta er mjög skrítið dæmi“

Vík í Mýrdal.
Vík í Mýrdal. mbl.is/Jónas í Fagradal

„Nei ég hef nú ekki orðið var við að það hafi verið bætt úr. Þetta er mjög skrítin aðferð hjá Vegagerðinni, hvernig þeir hafa þetta. Að einhver úr Hafnarfirði skuli stýra því hvenær er hálkuvarið hér eða hvenær er yfirleitt mokað, eftir myndavélum. Þetta er mjög skrítið dæmi,“ segir Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, en sveitarstjórn hreppsins krafðist þess í bókun á síðasta fundi sínum að betur yrði staðið að hálkuvörnum í sveitarfélaginu.

„Þetta hefur verið töluvert vandamál hérna í haust. En í lagi núna. Það er engin hálka eins og er. Hér er ansi byljótt á köflum og þegar mikil hálka er dugar ekkert að verja eins og gert er samkvæmt þeirra reglum, að strá sandi í tvær til þrjár brekkur á leiðinni og síðan ekki söguna meir. Það dugar ekkert,“ segir Ásgeir.

Spurður hvort Vegagerðin hafi rætt um að breyta fyrirkomulaginu eftir umkvartanir sveitarstjórnar sagði hann: „Nei, þeir vísa bara í þessar reglur sem eru í gildi um hvernig eigi að sinna þessu og við erum bara 2. flokks í þessum efnum. Það er mjög sérkennilegt.“

Segir ekki hálkuvarið þegar þörf er á

Við erum á svæði 3 og hér á að hálkuverja á sérstökum stöðum. Svo stendur nú reyndar í þessum reglum þeirra líka að það eigi að hálkuverja þegar þörf er á, en það hefur ekki verið gert,“ segir Ásgeir.

Skólabíllinn fór út af í hálku í vetur

„Við höfum misst skólabílinn út af einu sinni vegna þessa og það er mjög alvarlegt mál. En sem betur fer var það á stað þar sem gerðist ekkert. Svo vorum við líka að kvarta yfir því hvað þeir fara seint af stað. Krakkarnir sem eiga lengst að með skólabílnum eru rúman hálftíma á leiðinni í skólann. Skólinn byrjar hér klukkan átta og menn þurfa að vera búnir að þessu fyrir hálfátta allavega. En þeir voru stundum að fara af stað upp úr átta eða hálfníu, þegar krakkarnir voru komnir í skólann. Þetta var það sem við höfðum mestar áhyggjur af,“ segir Ásgeir að lokum.

„Þjóðvegurinn iðulega verið illfær vegna hálku“

Bókun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps í heild sinni: „Sveitarstjórn Mýrdalshrepps krefst þess að betur verði staðið að hálkuvörnum á þjóðvegi 1 í sveitarfélaginu. Þjóðvegurinn hefur iðulega verið illfær í haust vegna hálku og hvassviðris. Sérstaklega er þetta slæmt þegar skólabílarnir eru á ferðinni með skólabörn milli kl. 7 og 8 á morgnana. Algerlega er óviðunandi að eingöngu séu brattar brekkur hálkuvarðar og að auki hefur það oft komið fyrir að ekki er farið af stað til hálkuvarna fyrr en skólabílar hafa lokið sinni morgunferð.

Í reglum Vegagerðarinnar um hálkuvarnir á þjónustusvæði 3 segir: „Vegur skal hálkuvarinn á varasömum stöðum eða við varasamar veðuraðstæður (þ.e. þar sem og þegar búast má við sterkum vindstrengjum eða sviptivindum) þegar flughálka kemur upp eða hætta er á að slík hálka geti myndast,“ mikið vantar á að staðið hafi verið við framangreint og krefst sveitarstjórn skjótra úrbóta.“

Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.
Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps. mbl.is
Það getur orðið ansi hvasst í Mýrdalnum og sviftivindasamt.
Það getur orðið ansi hvasst í Mýrdalnum og sviftivindasamt. mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert