„Þetta er skemmtileg og gefandi vinna og verkefnin fjölbreytt. Ég var tilbúinn að leggja mikið á mig til að komast inn,“ segir Zvezdan Smári Dragojlovic frá Ísafirði sem er að hefja nám í grunnnámi við Lögregluskóla ríkisins og er stoltur af því að hafa komist að.
Hann stóðst inntökuprófin með glæsibrag, meðal annars í íslensku. „Ég kveið fyrir íslenskuprófinu. Vissi að ég gæti náð enskunni, staðist þrekpróf og væri með góða almenna þekkingu,“ segir Zvezdan sem aldrei er kallaður annað en Seko á Ísafirði.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að Seko kom til Íslands frá Serbíu fyrir tólf árum til að leika körfubolta með KFÍ „sem er eins og allir vita besta körfuboltalið í heimi“, segir Seko og hlær við. Hann segist aldrei hafa verið atvinnumaður í körfubolta og ávallt unnið almenna vinnu með. Hann hefur unnið í frystihúsi og meira að segja farið einn túr á sjó en lengst af unnið við smíðar. Hann vann síðast hjá GÓK húsasmíði í Bolungarvík og sjá samstarfsmenn hans mikið eftir honum.