„Sú staða er komin upp að einfaldar samningaviðræður virka ekki. Það þarf meira til og að okkar mati er það að grípa til refsiaðgerða vegna þess að það kvótamagn sem Íslendingar og Færeyingar hafa tekið sér er alger bilun.“
Þetta er haft eftir Ian Gatt, framkvæmdastjóra samtaka skoskra uppsjávarsjómanna, á fréttavef breska dagblaðsins Guardian í dag. Þá er einnig haft eftir honum að Evrópusambandið og Norðmenn hafi lagt fram ýmsar tillögur að lausn makríldeilunnar en „engin svör eða gagntilboð“ hafi borist frá Íslandi eða Færeyjum.
Fjallað er um forsögu makríldeilunnar í fréttinni og að skoskir útvegsmenn hafi kallað eftir því að Evrópusambandið refsi Íslendingum og Færeyingum vegna makríldeilunnar. Hins vegar séu tvær hliðar á málinu þar sem atvinnulíf ensku borgarinnar Grimsby og Humber-svæðisins sé mjög háð íslenskum fiski til vinnslu.
Haft er eftir Steve Norton, framkvæmdastjóra samtaka fiskkaupmanna í Grimsby, að um fjögur þúsund störf í Bretlandi byggist á sjávarafurðum frá Íslandi og 70-80% af frystu sjávarfangi sem selt sé í landinu. Hann segist ekki telja líklegt að gripið verði til refsiaðgerða gegn Íslandi en engu að síður sé atvinnulífi svæðisins ógnað með hótunum um slíkt.
„Engin þjóð lætur undan slíkum hótunum“
Einnig er rætt við Benedikt Jónsson, sendiherra Íslands á Bretlandi, sem segir að refsiaðgerðir séu besta leiðin til þess að koma í veg fyrir að samningar náist um makrílveiðarnar. „Engin þjóð lætur undan slíkum hótunum.“ Þá er haft eftir Sigurgeiri Þorgeirssyni, aðalsamningamanni Íslands, að það sé alls ekki rétt að Íslendingar hafi ekki komið með gagntillögur að lausn deilunnar. Enn beri hins vegar mikið í milli.
Haft er að lokum eftir sjávarútvegsráðherra Bretlands, Richard Benyon, að bresk stjórnvöld muni áfram reyna að ná fram sanngjörnum samningum í makríldeilunni. „Það kallar hins vegar á mun jákvæðari og sveigjanlegri nálgun við stöðu mála af hálfu mótaðila okkar en við höfum séð til þessa.“