Fjögur framboð höfðu borist fyrir forval VG í Norðvesturkjördæmi í gærkvöldi. „Við þykjumst vita að það séu fleiri framboð á leiðinni,“ sagði Friðrik Aspelund, formaður kjörstjórnar.
Framboðsfresti lýkur á miðnætti í kvöld. Nöfn frambjóðenda verða tilkynnt fljótlega eftir það. Kosið verður um sex efstu sætin á listanum í póstkosningu. Atkvæði verða talin 2. febrúar næstkomandi.
Þegar hefur komið fram að Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður, sem var í 2. sæti 2009, sækist eftir 1. sæti á listanum. Jón Bjarnason alþingismaður hefur verið oddviti VG í kjördæminu. Ekki náðist í hann í gær. Lárus Ástmar Hannesson hefur gefið kost á sér í 2. sæti en hann var í 10. sæti á lista VG í kjördæminu fyrir síðustu kosningar.