Ekki liggir fyrir hver fjöldi frambjóðenda í prófkjöri Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi er á þessari stundu, en samkvæmt upplýsingum frá Friðriki Aspelund, formanni kjörstjórnarinnar, verður tilkynning þess efnis send fjölmiðlum í fyrramálið. Hann segist þó telja að nokkur fjöldi frambjóðenda muni taka þátt í prófkjörinu og á jafnvel von á baráttu um efsta sætið, en segist ekki hafa heimild til að gefa upp nein nöfn, að svo stöddu.
Framboðsfrestur rennur út á miðnætti, en þar sem hægt er að senda framboð á netföng allra kjörstjórnarmeðlima reynist ekki unnt að taka saman endanlegan lista fyrr en á morgun, að sögn Friðriks.
Þrír hafa þegar lýst sjálfir yfir framboði, Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem sækist eftir 1. sæti, Lárus Ástmar Hannesson, sem gefur kost á sér í 2. sæti og Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir sem gefur kost á sér í 3. - 6. sæti.
Ekki er vitað hvort Jón Bjarnason, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, gefi kost á sér en hann hefur verið oddviti flokksins í kjördæminu um árabil. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur mbl.is ekki náð í Jón í kvöld til að bera undir hann hvort hann hyggi á endurkjör í vor.