Lífeindafræðingar á Landspítalanum segja að framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs Landspítala hafi í morgun sagt að ef ekki yrði lát á fundum lífeindafræðinga um kjaramál yrði að skrá fjarveru starfsmanna vegna funda sem óheimila fjarvist sem hefði áhrif á laun þeirra.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem lífeindafræðingar sendu frá sér í dag. Þar kemur fram að undanfarna mánuði hafi lífeindafræðingar á Landspítala fundað einn til þrjá morgna í viku vegna óánægju með kjaramál og til að skapa þrýsting um gerð nýs stofnanasamnings við spítalann. Viðræður samstarfsnefndar lífeindafræðinga á LSH hafi engu skilað og því hafi þessum fundum verið haldið áfram. Auk þess hafa lífeindafræðingar fylgt sínum fulltrúum á fundi samstarfsnefndar til að veita þeim stuðning.
„Á fund í morgun mætti Ásbjörn Jónsson, framkvæmdarstjóri Rannsóknarsviðs LSH ásamt mannauðsráðgjafa og tilkynni að yrði ekki gert hlé á þessum fundarhöldum yrði yfirmönnum hverrar deildar gert að skrá fjarveru starfsmanna vegna fundanna sem óheimila fjarvist og sá tími dreginn af launum. Á morgun er fundur hjá samstarfsnefnd og munu lífeindafræðingar sýna fulltrúum sínum fullan stuðning og fylgja þeim á fundinn. Auk þess hafa lífeindafræðingar ekki í hyggju að gera hlé á fundum sínum og þykir þetta útspil spítalans með eindæmum lélegt og sýna lítinn skilning á þeirri miklu óánægju sem er á meðal lífeindafræðinga á Landspítala,“ segir í tilkynningu frá lífeindafræðingum.