Hafna efnisbreytingum á frumvarpi stjórnlagaráðs

Þingflokkur Hreyfingarinnar.
Þingflokkur Hreyfingarinnar. Morgunblaðið/Ómar

Hreyfingin vill ekki að gerðar verði efnisbreytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs. Í yfirlýsingu frá flokknum segir að það sé „ekki hlutverk þingmanna eða embættismanna að breyta frumvarpinu, heldur að standa kirfilega með vilja þjóðarinnar.“

Í yfirlýsingunni er minnt á að unnið hafi verið að gerð nýrrar stjórnarskrár í opnu og lýðræðislegu ferli í tvö og hálft ár. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hafi í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október sl. lýst þeim vilja að frumvarp stjórnlagaráðs verði grunnurinn að nýrri stjórnarskrá. „Það er því afar mikilvægt að þingið gangist við því lýðræðislega ferli sem það sjálft samþykkti samhljóða 16. júní 2010 og standi að baki frumvarpi stjórnlagaráðs.“

Í yfirlýsingunni, sem Birgitta Jónsdóttir sendi fyrir hönd Hreyfingarinnar, segir að flokkurinn sé mótfallinn efnisbreytingum á frumvarpi stjórnlagaráðs. „Þær efnisbreytingar sem þegar hafa verið gerðar á frumvarpi stjórnlagaráðs í meðferð svokallaðs lögfræðingahóps þurfa að ganga til baka. Það er á valdi og á ábyrgð meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að sjá til þess að fyrra inntak komist aftur inn í frumvarpið í meðförum nefndarinnar.

Breytingartillögur kunna líka að verða lagðar fram við umræðu í þinginu. Það er þá á ábyrgð meirihluta þingsins að samþykkja ekki efnisbreytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs.

Ný stjórnarskrá var krafa í kjölfar hrunsins. Nýjar leikreglur fyrir handhafa almannavalds eru nauðsynlegar. Þjóðfundur þúsund Íslendinga lagði fyrst línurnar og stjórnlaganefnd tók saman. Stjórnlagaráð samdi því næst frumvarp að stjórnarskrá í opnu ferli með þjóðinni og samþykkti samhljóða. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október kom svo í ljós að vilji mikils meirihluta kjósenda er sá að ný stjórnarskrá skuli grundvölluð á frumvarpi stjórnlagaráðs. Það er því ekki hlutverk þingmanna eða embættismanna að breyta frumvarpinu, heldur að standa kirfilega með vilja þjóðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert