Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Olíuverzlun Íslands hf., Skeljung hf. og Ker hf. af kröfum íslenska ríkisins sem fór fram á skaðabætur vegna olíusamráðs. Ríkinu er samtals gert að greiða félögunum 4,6 milljónir í málskostnað.
Um er að ræða tvö skaðabótamál sem voru tekin fyrir í héraðsdómi í nóvember. Annars vegar er um að ræða mál íslenska ríkisins gegn Olíuverzlun Íslands og Skeljungi vegna ólögmæts samráðs í olíuviðskiptum Landhelgisgæslu Íslands og dómsmálaráðuneytisins. Olíufélögin voru sýknuð og er ríkinu gert að greiða hvoru fyrirtæki um sig 800 þúsund kr. í málskostnað.
Í hinu málinu fór ríkið fram á skaðabætur gegn Keri, Olís og Skeljungi hf. vegna ólögmæts samráðs í viðskiptum Vegagerðarinnar. Fyrirtækin þrjú voru sýknuð í héraðsdómi og skal ríkið greiða hverju um sig eina milljón kr. í málskostnað.
Bæði málin fjalla um samráð sem olíufélögin höfðu með sér í útboði árið 1996.
Skaðabótakröfur íslenska ríkisins á hendur Keri, Olíuverslun Íslands og Skeljungi námu samtals 24,6 milljónum króna og skaðabótakröfur ríkisins á hendur Olíuverslun Íslands og Skeljungi námu 39,9 milljónum króna.
Ekki liggur fyrir hvort málinu verður áfrýjað.