Alls bíða 272 þingmál afgreiðslu á yfirstandandi þingi en Alþingi kemur aftur saman næstkomandi mánudag og lýkur síðan störfum samkvæmt starfsáætlun þingsins hinn 15. mars næstkomandi.
Miðað við dagskrá þingsins eru því 35 dagar eftir af störfum þess, þar af 28 dagar ætlaðir fyrir þingfundi, fimm dagar fyrir nefndastörf, einn fyrir eldhúsdagsumræður og loks einn fyrir þingflokksfundi.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að samtals bíða 92 þingsályktunartillögur fyrri eða einnar umræðu, 37 tillögur eru í nefnd, og ein tillaga (rammaáætlun) bíður atkvæðagreiðslu. Þá bíða 74 lagafrumvörp fyrstu umræðu, 63 frumvörp eru í nefnd og fimm frumvörp bíða annarrar umræðu. Á meðal þeirra mála sem enn bíða afgreiðslu eru rammaáætlun, frumvarp til stjórnskipunarlaga og frumvarp til nýrra umferðarlaga.