Skógræktarfélag Reykjavíkur er mjög ósátt við að ákveðið hafi verið að leggja til hliðar tillögu um deiliskipulag fyrir Heiðmörk. Ekki megi verða frekari tafir á afgreiðslu tillögunnar. Félagið mótmælir því einnig, sem kemur fram í umsögn Orkuveitunnar, að efnamengun geti stafað frá skógrækt.
Eins og kom fram í frétt mbl.is fyrr í dag hefur skipulagsráð borgarinnar ákveðið að leggja til hliðar tillögu að deiliskipulagi fyrir Heiðmörk. Í tillögunni er m.a. gert ráð fyrir að malbika alla akvegi í Heiðmörk og jafnframt er reiknað með að umferð um svæðið aukist. Orkuveitan mótmælir þessu og vill takmarka umferð bíla og hesta um Heiðmörk vegna vatnsverndarsjónarmiða.
Skógræktarfélag Reykjavíkur mótmælti harðlega vinnubrögðum Orkuveitunnar sem sendi umsögn sína þegar umsagnarferlinu var að ljúka. Félagið hvatti skipulagsráð Reykjavíkurborgar til að líta framhjá umsögn OR við afgreiðslu skipulagstillögunnar og afgreiða tillögun óbreytta eins og hún var auglýst. „Ekki mega verða frekari tafir á gerð deiliskipulags Heiðmerkur, nægar tafir hafa orðið á þeirri vinnu hingað til og brýnt að afgreiða tillöguna svo hægt verði að standa betur og skipulegar að málum í Heiðmörk.“
Í umsögn Orkuveitunnar, þar sem vikið er að efnamengun, er skógrækt nefnd sem áhættuþáttur og liðnum gefin einkunnin 7. Þessu mótmælir Skógræktarfélagið. „Rannsóknir vísindamanna hafa sýnt fram á að skógrækt, jafnt hérlendis sem erlendis, dregur úr hættu á efnamengun vatns. Verða gæði neysluvatns mun betri þar sem skógur hefur verið ræktaður en á illa grónu og rofnu landi. Skógur hægir á yfirborðsflæði vatns, dregur úr flóðahættu og miðlar hreinu vatni til vatnsbóla. Um leið bætir skógur lífsskilyrði í ám og vötnum með temprandi áhrifum sínum og með því að vera fæðuuppspretta fyrir vatnalífverur. Einhver besta trygging fyrir framleiðslumiklum vatnavistkerfum, minni flóðahættu og háum vatnsgæðum er að vatnasvið séu að verulegu leyti skógi vaxin. Það vekur athygli að Orkuveitan var sjálf aðili að rannsóknunum sem leiddi af sér þær niðurstöður, að trjágróður dragi úr efnamengun. Að snúa blaðinu við nú eykur ekki traust á umsögn og vinnubrögðum OR.“
Skógræktarfélagið ósammála þeirri afstöðu OR að takmarka eigi bílaumferð um Heiðmörk og koma í veg fyrir að hægt sé að aka í gegnum svæðið. „Minnt skal á, að Heiðmörk er fjölsóttasta útivistarsvæði höfuðborgarbúa skv. könnunum og nemur virði Heiðmerkur til útivistar margföldu virði vatnsbóla í Heiðmörk. Slíkar hömlur á aðgengi almennings að Heiðmörk myndu einnig mismuna íbúum gróflega, því börn, eldri borgarar og öryrkjar munu illa geta nýtt sér mörkina til náttúruskoðunar, útivistar og heilsubótar, ef þeim verður meinað að aka þangað inn í bíl. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur enda ekki upplýsingar um að bílaumferð í Heiðmörk hafi valdið mengun í vatnsbólum frá því að stofnað var til útivistarsvæðisins 1950. Okkur sýnist því umsögnin vera markleysa, sem felur í sér ólöglega mismunun.“