Von á mikilli hálku í kvöld

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar varar við mikilli hálku síðar í dag en það lægir og léttir til um suðvestan- og vestanvert landið. Norðanlands léttir einnig til í kvöld og sama má segja um Suðurland austan Víkur. Austanlands verður hinsvegar áfram bleyta í kvöld og nótt.

Vegir eru auðir á Suður- og Suðausturlandi, og eins við Faxaflóa. Það er hálka á Holtavörðuheiði en hálkublettir á Svínadal og Laxárdalsheiði.

Á Vestfjörðum er víða hálka, einkum á fjallvegum. Flughált er á Steingrímsfjarðarheiði og á köflum á Ströndum. Verið er að opna úr Bjarnarfirði norður í Gjögur.

Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir á flestum vegum. Flughált er milli Sauðárkróks og Hofsóss.

Nokkur hálka er einnig á Austurlandi en þó greiðfært með ströndinni frá Eskifirði og suður um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert