Svissneskur auðmaður hefur fjárfest fyrir 800 milljónir í Eyjafirði

Svisslendingurinn Tomas Seiz hefur fjárfest fyrir 800 milljónir síðustu árin …
Svisslendingurinn Tomas Seiz hefur fjárfest fyrir 800 milljónir síðustu árin á Eyjafjarðarsvæðinu. Skjáskot frá N4

Síðustu ár hefur auðugur Svisslendingur keypt töluvert af eignum á Eyjafjarðarsvæðinu og staðið í nokkrum endurbótum. Meðal þeirra er jörðin Nollur, 2 hús á Grenivík, hús á Akureyri, auk þess sem hann festi kaup á svokallaðri Bónushöll sem Jóhannes í Bónus keypti nokkru fyrir hrun. Samtals nema fjárfestingar mannsins um 800 milljónum á síðustu árum. Sjónvarpsstöðin N4 tók nýlega viðtal við hann þar sem farið er yfir feril og áform hans hérlendis.

Maðurinn á bakvið þessar fjárfestingar er tölvunarfræðingurinn Tomas Seiz, en hann hefur meðal annars flutt allan tölvubúnað sem fyrirtækið hans notar í fjósið á Nolli þar sem hann segir að kæling, orkukostnaður og nettenging sé ódýrari hér á landi en í Sviss.

Fyrst heillaðist hann af landi og þjóð árið 1994, en byrjaði að læra íslensku árið 2004. Í dag talar hann málið nokkuð lýtalaust og ætlar sér stóra hluti í Eyjafirði. Fyrir utan að búa að Nolli hefur hann þar unnið að því að koma upp þremur sumarhúsum. Reyndar er það varla réttnefni, enda húsin í sjálfu sér stór íbúðahús þótt þau verði notuð í útleigu. Einnig stefnir hann á að nýta húsin á Grenivík undir ferðaþjónustu.

Það er því ljóst að Seiz hefur séð mikil tækifæri hér á landi, en hann segir í viðtalinu á N4 að hann hafi viljað fjárfesta hér eftir hrun í stað þess að kaupa í hlutabréfum sem fari alltaf upp og niður. Hér muni á endanum verð hækka og því séu kaupin hér góð fjárfesting.

Sjá má viðtalið við Seiz í fullri lengd hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert