Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á nauðgun sem átti sér stað í Reykjavík aðfaranótt sunnudags stendur enn yfir. Í gær lagði ungur karlmaður fram kæru vegna árásarinnar. Þegar fyrst var greint frá málinu í fjölmiðlum var talað um hópnauðgun en að sögn lögreglu er aðeins um einn geranda að ræða.
„Það er bara einn gerandi en ekki útilokað að annar hafi staðið hjá,“ segir Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, í samtali við mbl.is. Ekki sé vitað hvort viðkomandi hafi verið í slagtogi við árásarmanninn eður ei. Einstaklingurinn hafi hins vegar ekki tekið þátt í árásinni en að sama skapi aðhafðist hann ekkert til að hjálpa manninum sem varð fyrir ofbeldinu.
„Við erum að safna upplýsingum úr eftirlitsmyndavélum. En að öðru leyti er málið mjög óljóst,“ segir Björgvin.
Skýrsla var tekin af manninum sem lagði fram kæruna í gær. Björgvin segir að það liggi ekki fyrir hvar nauðgunin átti sér stað. Maðurinn var hins vegar staddur við Hörpu þegar hann hringdi til að óska eftir aðstoð lögreglu. „Það er ekki vettvangurinn [þar sem árásin átti sér stað],“ segir Björgvin um tónlistar- og ráðstefnuhúsið.
Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við málið og þá er ekki búið að boða fleiri í skýrslutökur vegna þess. Björgvin segir að engin vitni hafi verið að árásinni.