„Þetta kemur ekki á óvart og rennir enn frekari stoðum undir þá skoðun að það eina skynsamlega í stöðunni sé að leggja þetta mál til hliðar,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í utanríkismálanefnd Alþingis, í samtali við mbl.is.
Eins og mbl.is fjallaði um fyrr í dag var ákveðið líklega einhvern tímann á síðasta ári að taka erfiðustu kaflana svonefnda í viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, um sjávarútvegs og landbúnaðarmál, ekki fyrir fyrr en í lok viðræðnanna sem gæti orðið í lok þessa árs.
„Nú er verið að ýta erfiðu köflunum fram í lokin á viðræðunum. Hvers vegna er verið að gera það? Til þess að Evrópusambandið geti komið á allri sinni aðlögun með tilheyrandi IPA-styrkjum og öðru til þess að reyna að hafa áhrif á skoðanir fólks? Fyrir mér eru þessir erfiðustu kaflar ekki skiptimynt. Fyrir mér eru þeir grundvallaratriði og það er eins gott að taka þá fyrir strax og sjá hvað kemur út úr því eða bara sleppa þessu,“ segir Ragnheiður.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir það mjög skrítið ef íslenskir ráðamenn hafa gert einhvers konar samkomulag við Evrópusamabndið um að geyma mikilvægustu kaflana, sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin, þar til síðast.
„Er það þá ekki gert til þess að leiða okkur lengra og lengra inn í aðlögunarferliðí von um að erfiðara verði fyrir okkur að snúa til baka og nota sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin sem einhvers konar gulrót í því sambandi?“ spyr Gunnar.